Grindvíkingar burstuðu Fram
Í kvöld tóku Grindvíkingar á móti Fram í 14. umferð Pepsi deildar karla. Þeir gulu gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn með þremur mörkum gegn engu. Grindvíkingar sitja nú í 10. sæti deildarinnar með 12 stig, einu stigi meira en Selfoss sem situr í 11. sætinu en þremur stigum fyrir neaðn Fylki í níunda sætinu.
Upphafsmínútur leiksins voru heldur rólegar, liðins skiptust á að sækja en tókst ekki að skapa neina hættu. Eftir nitján mínútna leik dróg heldur betur til tíðinda. Gilles Mbang Ondo kom þá heimamönnum yfir með glæsilegu skoti. Aðeins mínútu síðar skoraði Hafþór Ægir annað mark fyrir Grindavík og staðan því orðin 2-0 eftir aðeins tuttugu mínútur. Eftir þetta hresstust þeir gulu og fóru að sækja af krafti á meðan Frammararnir voru ekki alveg jafn hressir. Hvorugu liðinu tókst þó að bæta við marki áður en flautað var til hálfleiks.
Gestirnir voru örlítið hressari í seinni hálfleiknum og áttu nokkur færi. Þeim tókst að skora á 53. mínútu en það mark var dæmt af þar sem boltinn fór í netið með hjálp hendi eins Frammarans. Það má segja að Grindvíkingarnir hafi átt síðustu mínútur leiksins. Á 83. mínútu var Orri Freyr Hjaltalín mjög nálægt því að skora en boltinn fór rétt fram hjá markinu. Tveimur mínútum síðar átti Scott Ramsay gott skot en Hannes í marki gestanna varði vel. Á 90 mínútu innsiglaði Gilles Mbang Ondo sigur heimamanna með öðru marki sínu eftir að Hannes, markvörður Frammara, hafði misst boltann eftir markvörslu.
Það er ljóst að breytingar hafa orðið í Grindavíkurliðinu og verður gaman að fylgjast með þeim það sem eftir lifir móts.
Næsti leikur Grindvíkinga er gegn Val á Vodafonevellinum sunnudaginn 8. ágúst og hefst hann klukkan 19:15.
VF-myndir / Sölvi Logason - Gilles Mbang Ondo kemur Grindvíkingum yfir á 19. mínútu.
Hafþór Ægir skorar annað mark Grindavíkur á 20. mínútu.