Grindvíkingar bæta enn við sig mönnum
Grindavík í Pepsi-deildinni í knattspyrnu hefur fengið til sín varnarmanninn Björn Berg Bryde frá FH, en hann lék með liðinu gegn Fjölni í Lengjubikarnum um helgina.
Björn, sem er 19 ára gamall varð Íslandsmeistari með 2. flokk félagsins síðasta sumar, en hann var fyrirliði flokksins. Hann gekk upp úr flokknum eftir sumarið, en hefur ákveðið að róa á önnur mið.
Hann hefur nú gengið til liðs við Guðjón Þórðarson og félaga í Grindavík fyrir komandi átök í Pepsi-deildinni. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið er það gerði 1-1 jafntefli við Fjölni á laugardag, en þá kom hann inn á sem varamaður í hálfleik.