Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar áttu aldrei möguleika
Fimmtudagur 9. desember 2004 kl. 00:28

Grindvíkingar áttu aldrei möguleika

Línurnar voru svo sannarlega dregnar í 1. deild kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar Keflavík jarðaði Grindavík, 90-70.

Yfirburðirnir voru miklu meiri þar sem Keflvíkingar gátu leyft sér að slappa af í síðasta leikhluta enda var staðan áður en í hann var farið 84-43.

Grindvíkingar höfðu ætlað sér að gleyma yfirhalningunni í hópbílabikarnum á dögunum, en leikurinn í kvöld var ekki skemmtilegri. Grindavík mætti til leiks með nýjan Kana, Myriah Spence, sem stóð sig með ágætum en gat ekki haldið uppi leik liðsins ein og var orðin nokkuð þreytt undir lokin.

Keflvíkingar tóku á gestunum í upphafi leiks og náðu strax góðu forskoti í krafti góðrar varnar og má með sanni segja að Grindavíkurstúlkur hafi aldrei séð til sólar í leiknum.

Á lokakaflanum náðu gestirnir að rétta sinn hlut umtalsvert þar sem sigur Keflvíkinga var löngu í höfn. Sigurinn sýnir í eitt skipti fyrir öll þann Ægishjálm sem Keflavík ber yfir önnur lið á landinu og er erfitt að sjá eitthvað lið leggja meistarana þegar þar eru í viðlíka ham.

Bryndís Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir meistarana og hefur í vetur verið að sanna sig sem ein allra besta körfuknattleikskona landsins þrátt fyrir ungan aldur. Skoraði hún 23 stig í kvöld og var stigahæst í sínu liði.

Ekki var fyrsta heimsókn Erlu Reynisdóttur og Erlu Þorsteinsdóttur á fornar slóðir heillavænleg því að sannast sagna náðu þær sér alls ekki á strik. Voru þær með tvö stig hvor og munar um minna þegar máttarstólpar liðsins eru teknir svo kyrfilega úr umferð.

Keflvíkingar eru enn ósigraðar í 9 leikjum og trjóna að sjálfsögðu á toppi deildarinnar og verða þar sennilega í nokkurn tíma.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Jón Björn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024