Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar aldrei hugsað um að reka Guðjón
Fimmtudagur 23. ágúst 2012 kl. 09:36

Grindvíkingar aldrei hugsað um að reka Guðjón

„Þetta er bara eins og í hjónabandi. Það er ekkert skipt um maka við minnstu erfiðleika“

„Guðjón hefur fullan stuðning frá okkur og það hefur skinið alveg í gegn frá upphafi,“ segir Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur í samtali við Víkurfréttir. Hann segir að leikurinn sem tapaðist gegn Selfossi hafi verið áfall fyrir Grindvíkinga. Hann segir jafnframt að stemningin í liðinu sé enn furðugóð en þó séu inni á milli pirraðir leikmenn eins og gerist og gengur en Grindvíkingar eru sem kunnugt er í neðsta sæti Pepsi-deildar karla. Hann segir Grindvíkinga aldrei hafa íhugað það að skipta um þjálfara á tímabilinu þrátt fyrir slakt gengi. „Þetta er bara eins og í hjónabandi. Það er ekkert skipt um maka við minnstu erfiðleika, maður verður bara að vinna úr málunum,“ segir Jónas.
„Guðjón hefur góða nærveru og það hefur satt best að segja komið mér á óvart hversu vel hann hefur tekið þessu gengi okkar.“

Jónas segir að Grindvíkingar séu með marga menn í meiðslum og það hafi nánast aldrei verið hægt að stilla upp sama liðinu tvo leiki í röð. „Leikmenn eins og Jósef Kristinn og Bogi Rafn hafa nánast ekkert verið með. Alexander og Tomi Ameobi hafa svo verið meiddir meira og minna frá upphafi tímabils og svo mætti áfram telja.“ Jónas segir að fjárhagsstaðan hafi ekki verið sterk og hann vill í raun halda því fram að alvarlegasta vandamálið í íslenskum fótbolta í dag sé hve hátt hlutfall launa sé í rekstri félaga. „Það að 80-90% af peningnum fer í launagreiðslur þá er augljóslega búið að keyra þetta alveg í kaf,“ segir Jónas en hann nefnir sem dæmi hlutskiptakerfi sjómanna, það sé eitthvað sem knattspyrnan geti tekið til fyrirmyndar en þar eru þessi hlutföll í jafnvægi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Varðandi framhaldið hjá Grindvíkingum þá segir Jónas að þeir séu ekki búinir að missa trúna. „Við þekkjum það ekki hér í Grindavík,“ segir Jónas og hann vonast eftir því að stigin fari að koma í hús. „Eftir leikinn gegn Selfyssingum þurfum við augljóslega að glíma við stærri vanda en áður, en við tökum því sem fyrir hendur ber.“