Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar á góðri siglingu
Christabel Oduro hefur reynst drjúg fyrir Grindavík í ár en hún hefur skorað yfir helming marka þeirra, hefur skorað tíu af átján mörkum Grindavíkur. Myndir úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 6. ágúst 2021 kl. 09:19

Grindvíkingar á góðri siglingu

Grindavík hefur heldur betur verið að færa sig upp stigatöfluna í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu undanfarið. Leikur liðsins hefur stórbatnað og sjálfstraustið aukist, þá hafa nýir leikmenn bæst í hópinn og þeir hafa fallið vel inn í liðsheildina.

Eftir sjö umferðir var Grindavík í neðsta sæti með einungis þrjú stig en í síðustu sex leikjum hafa þær bætt við sig ellefu stigum, eru komnar með fjórtán stig og sitja í sjötta sæti deildarinnar sem stendur en ekki er búið að ljúka öllum leikjum umferðarinnar svo það gæti breyst. Grótta er í sjöunda sæti með þrettán stig og eiga leik til góða, ÍA er í áttunda sæti með ellefu og á leik til góða en hefur talsvers lakari markatölu en Grindavík, þá er HK í níunda sæti með níu stig en á tvo leiki til góða.

Eli Beard gekk til liðs við Grindavík í byrjun júlí og hefur smellpassað inn í liðið.

Eftir erfiða byrjun á Íslandsmótinu byrjaði gengi Grindavíkur að snúast þeim í hag þegar liðið mætti HK í byrjun júlí en sá leikur fór 1:1. Þá gerði Grindavík og Víkingur einnig 1:1 jafntefli í næsta leik þar á eftir en fyrsti sigur þeirra í Lengjudeildinni í ár kom gegn Aftureldingu í tíundu umferð (1:0). Í elleftu umferð töpuðu þær naumlega gegn Haukum (3:2) en komu sterkar til baka gegn Gróttu og unnu þann leik 3:1.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í gær mættu Grindvíkingar svo botnliði Augnabliks á Grindavíkurvelli og enn einn sigurinn leit dagsins ljós. Það var Júlía Ruth Thasaphong sem skoraði eina mark leiksins (68') og Grindavík fjarlægist fallsvæðið. Næsti leikur þeirra er gegn KR sem er í næstefsta sæti, það verður áhugaverð viðureign og kæmi undirrituðum ekkert á óvart að Grindavík hafi betur þar.

Júlía Ruth Thasaphong skoraði sigurmark Grindavíkur gegn Augnabliki í gær. Þetta var annað mark hennar í deildinni.