Grindavíkurstúlkur í miklu stuði
Grindavík gerði sér lítið fyrir og skellti deildarmeisturum Hauka í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna í körfubolta í Mustad höllinni í gær. Lokatölur urðu 85-71 í leik þar sem stórlið Hauka sá aldrei til sólar.
Whitney Michelle Frazier fór mikinn í liði heimastúlkna og skoraði 24 stig og tók 14 fráköst, Petrúnella Skúladóttir var með 15 stig, Ingunn Embla 14 og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 11.
Það var rétt aðeins í upphafi leiks sem eitthvað smá jafnræði var með liðunum en fyrsti leikhluti fór 15-12 fyrir Grindavík en næsta leikhluta unnu þær 31-13. Þær rauðu náði aðeins að minnka muninn en sigurinn var aldrei í hættu.
Daníel Guðni þjálfari Grindavíkur fór yfir leikinn og var hógvær þrátt fyrir ofurbyrjun Grindavíkur í einvíginu í spjalli við fréttamann vefsíðunnar karfan.is þar sem finna má ítarlega umfjöllun um allt það helsta í heimi körfuboltans.