Grindavíkurstúlkur í 8 liða úrslit
Grindavík er komið í 8 liða úrslit Visabikarsins eftir yfirburðasigur gegn sameinuðu liði Tindastóls/Neista. Leikurinn fór fram á Sauðárkróki í gær og áttu heimastúlkur aldrei möguleika gegn öflugu liði gestanna. Úrslit urðu 6-1 fyrir Grindavík.
Sarah McFadden opnaði markareikning Grindvíkinga. Margrét Albertsdóttir og Alexandra Sveinsdóttir bættu svo við mörkum og komu Grindavík í 3-0. Þá kom eina mark heimaliðsins sem það þurfti ekki sjálft að hafa fyrir því að skora því um sjálfsmark var að ræða. Þórkatla Albertsdóttir bætti við fjórða marki Grindvíkinga og Rachel Furness næstu tveimur.