Grindavíkurstúlkur efstar
Grindavík og Þróttur Reykjavík áttust við í A-riðli 1. deildar kvenna sl. þriðjudagskvöld á Þróttarvellinum. Var þetta slagur um hvort liðið yrði á toppnum eftir fyrri umferð Íslandsmótsins. Grindvíkingar réðu leiknum í fyrri hálfleik en uppskáru aðeins eitt mark sem Gerður Björg Jónasdóttir skoraði af 30 metra færi. Glæsilegt mark. Staðan í hálfleik var 1-0 Grindavík í vil. Seinni hálfleikurinn fór heldur rólega af stað og Þróttur komst aðeins inn í leikinn, en átti samt engin hættuleg færi. Grindavík átti hins vegar mörg góð færi í seinni hálfleik en náði ekki að nýta þau. Annað mark kom um miðjan seinni hálfleik en þar var Heiða Sólveig Haraldsdóttir að verki eftir fínt samspil Grindavíkinga. Þá var staðan orðin 2-0. Þróttarar náðu svo að klóra í bakkann undir lok leiksins með marki úr mikilli þvögu inni í teig eftirhornspyrnu. Þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum átti Grindavík þrumuskot í þverslánna auk annara góðra færa. En lokastaðan í leiknum var 2-1 fyrir Grindavík mjög sanngjarn sigur þar og eru þær því efstar í riðlinum með 13 stig, Þróttur í öðru með 12 stig og RKV í þriðja með 6 stig