Grindavíkurstelpur ekki upp um deild
Grindavíkurstelpur hafa spilað vel í sumar en náðu ekki að tryggja sæti í úrvalsdeild
Grindavíkurliðið í knattspyrnu kvenna tapaði í lokaleik sínum 3-2, í 1. deild kvenna þegar þær léku gegn Fylki í gær. Grindavíkurstelpum tókst ekki að leggja Fylki að velli í seinni undanúrslitaleik liðanna um sæti í úrvalsdeildinni. Fylkir vann seinni leikinn 3-2 og báða leikina samanlagt 6-3.
Það var ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir Grindavík eftir að hafa tapað fyrri leiknum 3-1. Dernelle Mascall kom Grindavík yfir á 27. mínútu. Anna Björg Björnsdóttir markahrókur Fylkis stjórnaði leiknum og skoraði þrennu og kom Fylki í 3-1 en Margrét Albertsdóttir minnkaði muninn fyrir Grindavík í lokin.
Sumarið hefur verið virkilega flott hjá stelpunum, frábær stemmning í kringum liðið og þær hársbreidd frá því að komast í Pepsideildina undir stjórn Helga Bogasonar. Liðið hefur leikið skemmtilegan fótbolta. Því miður náði liðið ekki að vinna sinn riðil því þá hefði Grindavík fengið auðveldari andstæðing í undanúrslitum. Þá veikti liðið talsvert að þrír sterkir leikmenn fóru í nám til Bandaríkjanna í ágúst og misstu af lokasprettinum. Mikill efniviður er fyrir hendi og nú er bara að halda áfram á fullum krafti og fara upp á næsta ári.
Markahæstar í sumar voru:
Margrét Albertsdóttir 18
Dernelle L Mascall 16
Ingibjörg Yrsta Ellertsdóttir 10
Anna Þórunn Guðmundsdóttir 8