Grindavíkursigur í stórskemmtilegum leik
Grindvíkingar lögðu Íslandsmeistara KR 109-100 í Röstinni í Grindavík í kvöld. Eftir skelfilega byrjun í Iceland Express deildinni með 25 stiga tapi gegn Keflavík hafa gulir nú rétt hlut sinn við og eru komnir á sigurbrautina. Leikurinn í Grindavík var frábær skemmtun frá upphafi til enda og hafði allt það besta fram að færa sem finnst í íslenskum körfuknattleik. Jafnræði var með liðunum allan tímann og skiptust þau á því að hafa forystuna. Gulir og glaðir reyndust sterkari á endasprettinum og uppskáru góðan sigur.
Páll Axel Vilbergsson fór á kostum í liði Grindavíkur og sallaði niður 27 stig og þar af setti hann niður sjö þriggja stiga körfur. Hjá KR voru þeir Joshua Helm og Avi Fogel báðir með 21 stig.
Heimamenn voru skrefinu á undan í upphafi leiks og komust í 16-10 með þriggja stiga körfu frá Páli Axeli en Íslandsmeistarar KR voru ekki lengi að jafna sig á fínni byrjun Grindavíkur og náðu að komast yfir 24-27 og þannig voru tölur að loknum fyrsta leikhluta. Fannar Ólafsson landsliðsmiðherji var ekki í byrjunarliði KR í kvöld en hann kom sterkur af bekknum og lét vel til sín taka að vanda.
Í 2. leikhluta var KR vörnin sofandi á verðinum framan af og því fengu Grindvíkingar mikið af opnum skotum sem þeir nýttu vel. Bæði lið voru í fimmta gír og fyrir vikið varð leikurinn algert augnakonfekt. Brynjar Björnsson kom KR í 45-47 þegar brotið var á honum í þriggja stiga skoti sem fór ofan í. Brynjar sett vítið svo niður og því um fjögurra stiga sókn að ræða hjá KR. Liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 57-56 Grindavík í vil og Igor Beljanski kominn með þrjár villur. Þorleifur Ólafsson kom gríðarlega sterkur inn af bekknum hjá Grindavík í kvöld og barðist vel á báðum endum vallarins.
Rétt eins og í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum í þeim síðari. Þegar 20 sekúndur voru til loka þriðja leikhluta höfðu KR-ingar fjögurra stiga forystu, 68-72 en þá kom skrýtin sókn hjá Grindavík. Páll Axel Vilbergsson setti niður þriggja stiga körfu eftir að
Jafnt var á öllum tölum í fjórða leikhluta sem var æsispennandi alveg þangað til tvær mínútur voru til loka leiksins. Jonathan Griffin og Þorleifur Ólafsson stigu þá rækilega upp í liði Grindavíkur á meðan allt fór í baklás hjá Íslandsmeisturunum. Á aðeins 20 sekúndna kafla misstu KR þá Fannar Ólafsson og Avi Fogel af velli með 5 villur og þá virtist leikur þeirra hrynja.
Páll Axel var stigahæstur hjá gulum með 27 stig, sjö þriggja stiga körfur og 10 fráköst. Honum næstur í liði gulra var Jonathan Griffin með 23 stig en þeir Þorleifur Ólafsson og Páll Kristinsson áttu einnig góðan dag í liði Grindavíkur. Þorleifur með 17 stig og Páll 14.
Þeir Joshua Helm og Avi Fogel gerðu báðir 21 stig fyrir KR, Jovan 16 og Helgi Magnússon var með 15 stig.
VF-Myndir/ [email protected]