Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavíkursigur í spennuleik
Mánudagur 25. janúar 2010 kl. 23:35

Grindavíkursigur í spennuleik


Grindvíkingar fóru með bæði stigin heim eftir góðan sigur á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokastaðan var 99-102, en Magnús Þór Gunnarsson fékk tækifæri til að jafna leikinn með þriggjastiga skoti á lokasekúndunum, sem vildi ekki ofan í.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn var jafn framan af og skiptust liðin á að skora, en nokkrum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks stigu Grindvíkingarnir fram úr með Pál Axel fremstan í flokki, en hann hitti úr 8 af 12 skotum fyrir utan þriggjastigalínuna í kvöld, með 67% nýtingu.

Staðan eftir þrjá leikhluta var 71-83 og lítið virtist ganga upp í sóknarleik heimamanna. Þegar um fimm mínutur voru eftir af leiknum hrukku Njarðvíkingar í gang, Brenton gerði sér lítið fyrir og keyrði inn í teig og tróð boltanum, og Magnús smellti þristi stuttu síðar. Munurinn kominn niður í tvö stig og innan við mínúta eftir.

Ólafur Ólafsson, hinn ungi og bráðefnilegi leikmaður Grindvíkinga skoraði ótrúlegan þrist, spjaldið ofan í með varnarmann á sér. Með innan við 10 sekúndur eftir af leiknum fær Magnús Þór tækifæri til að kalla fram framlengingu með þriggjastiga skoti, en það geigar og Grindvíkingar fagna sigrinum ákaflega.

Stigahæstir í liði Grindvíkinga voru Páll Axel Vilbergsson með 32 stig og 6 fráköst, Ólafur Ólafsson með 20 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst og Darrell Flake með 15 stig og 9 fráköst.

Hjá Njarðvík voru hvorki fleiri né færri en sex leikmenn með tíu stig eða meira. Stigahæstur var Magnús Þór Gunnarsson með 21 stig, Næst komu Friðrik Stefánsson, Guðmundur Jónsson og Jóhann Árni Ólafsson með 16 stig, Nick Bradford með 12 stig og Páll Kristinsson var með 10 stig og 10 fráköst.








Hér má sjá skot Ólafs Ólafssonar sem endaði spjaldið ofan í með innan við mínútu eftir af leikum.


Á þessari stundu voru taugarnar trekktar hjá flestum enda örfáar sekúndur eftir af leiknum og munurinn þrjú stig.

Hægt er að skoða fleiri myndir úr leiknum í ljósmyndasafni vf.is.



VF-myndir/ Hildur Björk Pálsdóttir og Páll Orri  Pálsson.