Grindavíkursigur gegn Njarðvík
Grindavík hafði betur í gærkvöldi þegar kvennalið Grindavíkur og Njarðvíkur áttust við í hörkuleik í Iceland Express deild kvenna.
Grindavík leiddi eftir fyrsta leikhluta, 18-15. Leikurinn var í járnum en Grindavík hafði þriggja stiga forystu þegar flautað var til hálffleiks, 34-31.
Grindavíkurstúlkur náðu góðum leikkafla eftir hálfleik og náðu að auka muninn í 12 stig. Þær virtust vera búnar að ná föstum tökum á leiknum en Njarðvíkurstúlkur komu einbeittar í fjórða leikhluta og léku af miklum krafti. Á stuttum tíma náði Njarðvík að minnka muninn í 53-50. Grindavíkingar tóku leikhklé og við það urði kaflaskipti í leiknum. Grindavík lék mjög vel sem skilaði sigri þeirra, 75-60.
Stigaskorið dreifðist nokkuð vel í Grindavíkurliðinu en fimm leikmenn voru með 10 stig eða meira. Helga Hallgrímsdóttir var grimm í fráköstunum, hirti 18 slík og skoraði 11 stig. Michele DeVault var með 14 stig og 8 fráköst og Ingibjörg Jakobsdóttir var með 14 stig.
Shantrell Moss var með 23 stig fyrir Njarðvík en frekar lélega nýtingu. Auður Jónsdóttir skoraði 11 og var með 5 fráköst.
Sjá nánari lýsingu á www.karfan.is
---
Mynd/www.karfan.is