Grindavíkurkonur völtuðu yfir Gróttu
9-0 sigur og tvær þrennur í fyrsta leik
Grindvíkingar tóku Gróttukonur í kennslustund í 1. deildinni í fótbolta í gær þegar þær unnu 9-0 sigur á heimavelli sínum. Var þetta fyrsti leikur Grindvíkinga í sumar og má með sanni segja að Grindavíkurkonur byrji mótið með látum. Þær Sara Hrund Helgadóttir og Sashana Carolyn Campbell skoruðu sína þrennuna hvor í leiknum fyrir þær gulklæddu. Marjani Hing-Glover bætti við tveimur mörkum og Dröfn Einarsdóttir skoraði eitt mark.
Staðan var einungis 2-0 í hálfleik en í þeim síðari opnuðust allar flóðgáttir hjá Gróttukonum og Grindvíkingar gengu á lagið.