Grindavíkurkonur aftur á sigurbraut
Kvennalið Grindavíkur kom sér aftur á sigurbraut í gærkvöldi í Subway-deild kvenna, þær unnu lið Fjölnis á útivelli, 76:81.
Danielle Rodriquez var stigahæst Grindavíkurkvenna með 24 stig og tók auk þess 10 fráköst.
Eve Braslis var með 21 stig og 5 stolna bolta og Hulda Björk Ólafsdóttir 18 stig og 5 fráköst.
Charisse Fairley sneri til baka eftir að hafa skroppið til Ameríku og komist þar í kast við lögin en það reyndist vera stormur í vatnsglasi. Það vantaði tvo leikmenn hjá Grindavík, Hekla Eik Nökkvadóttir meiddist á ökkla í síðasta leik á móti Stjörnunni og verður eitthvað frá og Ólöf Rún Óladóttir er tábrotin og verður frá í nokkrar vikur.
Næsti leikur Grindavíkur er á nýja heimavellinum í Smáranum á sunnudag kl. 16:30 en þá koma Snæfellingar í heimsókn.