Grindavíkurdömur hlaupa níu maraþon til styrktar MS
Anna Sigríður Sigurjónsdóttir ætlar að hlaupa sannkallað langhlaup fyrir MS félagið. Hún hleypur norður Kjöl og suður Sprengisand dagana 7. - 15. júlí. Hún mun hlaupa heilt maraþon á dag í 9 daga - eða samtals 374 km.
Með henni í för verða hlaupafélagar hennar úr Grindavík, Christine Bucholz og María Jóhannesdóttir. Hlaupið hófst í dag, sunnudag kl. 14 en fólk er hvatt til að ganga, hlaupa eða hjóla með þeim eða bara hvetja þær til dáða.
Aðspurð sagði Anna Sigríður í samtali við mbl.is, hlaupahópinn vera að safna kröftum en hópurinn er að sögn hennar mjög vel undirbúinn. „Svona hlaup er nú ekki alveg hrist fram úr ermi á augabragði. Við erum búnar að æfa vel og höfum áður hlaupið löng hlaup,“ segir Anna Sigríður og bendir á að hópurinn hafi í eitt skipti hlaupið 123 kílómetra samfellt í 29 klukkustundir. Var það við mjög erfiðar aðstæður á Kanaríeyjum. „Svo við höfum nú aðeins fengið nasasjón af því hvernig er að takast á við svona.“
Hlaupararnir verða ekki alveg einir því með þeim í för verða þrír hjálparkokkar sem eiga að sjá um alla matseld ásamt því að slá upp tjaldbúðum. „Þannig að þetta verður nú eiginlega bara dekurferð.“
Vert er að benda á að hægt er að nálgast upplýsingar um hlaupið á Facebook.