Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavíkurbær og UMFG gera samning um æfingagjöld
Miðvikudagur 9. mars 2011 kl. 09:36

Grindavíkurbær og UMFG gera samning um æfingagjöld

Í hálfleik í leik Grindavíkur og Fjölnis í gærkvöldi var undirritaður samningur á milli Grindavíkurbæjar og aðalstjórnar UMFG um eflingu íþróttastarfs í Grindavík.
Samningurinn sem er til tveggja ára er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Grindavík og UMFG um eflingu íþróttastarfs í Grindavík með megináherslu á öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 - 16 ára.

Styrkur Grindavíkurbæjar til UMFG vegna þessa samnings hljóðar upp á 18.000.000 kr. pr. ár og stuðlar hann að áframhaldandi möguleikum barna og ungmenna að stunda fleiri en eina íþróttagrein þar sem allar deildir innan UMFG hafa komið sér saman um að innheimta aðeins eitt æfingagjald, 20.000 kr., pr. barn á ári óháð fjölda íþróttagreina sem barnið stundar.

Samningsaðilar eru sammála um að með þessum samningi sé lögð áhersla á mikilvægi þess öfluga starfs sem fer fram innan UMFG fyrir samfélagið í heild og þátttaka barna og unglinga í íþróttastarfi verði áfram góð en hún hefur verið með því hæsta sem þekkist á landsvísu.

Samningsaðilar eru jafnframt sammála um að alhliða hreyfing og möguleiki barna til að kynnast sem flestum íþróttagreinum er af hinu góða fyrir börnin. Í ljósi þess mun UMFG starfrækja íþróttaskóla fyrir leikskólabörn þar sem megináhersla verður á aukin hreyfiþroska, fjölþættar æfingar, leikgleði og jákvæð fyrstu kynni af íþróttum. Íþróttaskólinn mun taka til starfa í ágúst/september 2011.

VF-Myndir: Siggi Jóns



Þeir sem undirrituðu samninginn f.v: Guðmundur Pálsson, formaður bæjarráðs, Bjarni Már Svavarsson, formaður UMFG og Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024