Grindavík vann Keflavík
Grindavík hélt sigurgöngu sinni í Intersport-deildinni áfram og bar sigurorð af Keflavík 92-90 á heimavelli sínum. Grindvíkingar voru yfir allan leikinn og höfðu 18 stiga forystu í hálfleik, en Keflvíkingar sóttu í sig veðrið undir lokin en náðu ekki að skáka heimamönnum.
Falur Harðarson var ómyrkur í máli að leik loknum. „Við spiluðum einfaldlega ömurlega í fyrri hálfleik. Það er alveg óafsakanlegt að mæta ekki tilbúnir í þennan leik. Við erum ekkert of góðir til þess að leggja eitthvað á okkur þegar við sækjum Grindavík heim.“
Friðrik Ingi hjá Grindavík var öllu sáttari við úrslit leiksins. „Við byrjuðum þennan leik mjög vel. Mínir menn voru að voru að spila afbragðs fyrri hálfleik þar sem við spiluðum góða vörn og vorum áræðnir í sókninni.“
Grindvíkingar náðu mest 22 stiga forystu í fyrri hálfleik en svo var eins og botninn dytti úr spilinu hjá þeim og Keflvíkingar gengu á lagið. „ Keflvíkingar fóru að taka sénsa og komust aftur inn í leikinn á meðan við bökkuðum of mikið og reyndum að halda fengnum hlut, sem gengur engan veginn upp gegn liði eins og Keflavík. Þetta var tæpt undir lokin, en við unnum sanngjarnan sigur.“
Stigahæstir Keflvíkinga voru Derrick Allen, sem skoraði 28 stig og tók 12 fráköst, og Falur sem setti 24 stig, þar af 7 þriggja stiga körfur.
Darrel Lewis var stigahæstur Grindvíkinga með 36 stig og 12 fráköst. Páll Axel Vilbergsson kom næstur með 23stig og þá Daniel Trammel, sem skorði 18 stig og tók 16 fráköst.
Að leik loknum er Grindavík enn í efsta sæti deildarinnar með 16 stig en Keflavík hefur 10 stig í fjórða sæti á eftir erkifjendunum úr Njarðvík og Snæfellingum, sem hafa staðið sig með mikilli prýði í vetur.
Hér má finna tölfræði leiksins