Grindavík vann ÍR í sex marka leik í Lengjubikarnum
Grindavík fer vel af stað í Lengjubikarnum en þeir unnu fyrsta leik sinn gegn ÍR í Egilshöllinni í gærkvöldi með fjórum mörkum gegn tveimur. Fotbolti.net greinir frá þessu í gær.
Guðmundur Andri Bjarnason kom Grindavík yfir á 18. mínútu leiksins með skoti úr teignum í kjölfar hornspyrnu Scott Ramsay. Hornspyrnurnar reyndust Grindvíkingum happadrjúgar því þeir bættu við öðru marki fjórum mínútum síðar þegar Orri Freyr Hjaltalín skallaði inn hornspyrnu frá Ramsay.
Á 32. mínútu kom flottasta mark leiksins þegar Elías Ingi Árnason skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu og minnkaði muninn niður í 1-2. Það var svo á lokamínútu fyrri hálfleiks að ÍR-ingar jöfnuðu. Elías Ingi kom þá upp hægra megin, sendi fyrir markið á Kristján Ara Halldórsson sem gaf út á Guðjón Gunnarsson sem skoraði.
Staðan 2-2 í hálfleik en eftir klukkutíma leik kom Orri Freyr Grindavík yfir að nýju og aftur var það með skalla eftir hornspyrnu Scott Ramsay.
Á 72. mínútu dæmdi Sigurhjörtur Snorrason dómari leiksins vítaspyrnu á ÍR-inga eftir hornspyrnu. Jamie McCunnie fór á punktinn og skroraði örugglega. Staðan orðin því 2-4 fyrir Grindavík og endaði leikurinn þannig.