Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 17. apríl 2000 kl. 21:05

Grindavík vann í fyrsta leik

Grindvíkingar unnu sigur á KR-ingum í kvöld 67:64, í fyrsta leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta, en leikurinn fór fram í Grindavík. Leikurinn var hörkuspennandi og "dramatískur" og hefði sigurinn getað lent hvoru megin sem er. Grindvíkingar virtust stressaðir í byrjun og skoruðu fyrstu stigin sín eftir um fjögurra mínútna leik og KR-ingar komnir í 5:0. Þá komst Brenton Birmingham í gang og setti hverja körfuna af annarri fyrir Grindavík, en hann átti stórleik fyrir heimamenn í kvöld. Af fyrstu 12 stigum liðsins átti hann 9, en alls skoraði hann 28 stig í leiknum og var langstigahæstur. Grindvíkingar náðu svo yfirhöndinni undir lok fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik, 31:28, fyrir Grindavík. Heimamenn náðu að auka enn við forskotið í byrjun síðari hálfleiks og komust mest tíu stigum yfir. Þá komust KR-ingar inn í leikinn á ný og náðu að jafna metin um miðjan síðari hálfleik. Eftir það skiptust liðin á að komast einu til tveimur stigum yfir það sem eftir var leiknum. Þegar um tíu sekúndur voru eftir var staðan jöfn, 64:64 og Grindvíkingar lögðu upp í sókn. Fyrirliði Grindvíkinga, Pétur Guðmundsson, fékk boltann í hendurnar þegar um þrjár sekúndur voru til leiksloka og allt stefndi í framlengingu. Pétur var hins vegar ekki á því, heldur gerði út um leikinn með þriggja stiga körfu og lokastaðan því 67:64, Grindvíkingum í hag. Brenton Birmingham var, eins og áður segir, stigahæstur í leiknum með 28 stig, næstir honum komu þeir Bergur Hinriksson og Dagur Þórisson með 8 stig hvor. Í liði KR var Keith Vassel stigahæstur með 18 stig, þá kom Jonathan Bow með 15 stig og Ólafur Jón Ormsson 11. Næsta viðureign liðanna verður í Íþróttahúsi KR í Frostaskjóli nk. miðvikudag kl 20:30.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024