Grindavík vann Hamar í skemmtilegum leik
Grindavík vann öruggan sigur, 85-67, gegn Hamar í Iceland Express deild karla í Röstinni í kvöld. Sigurinn var verðskuldaður en Grindavík leiddi leikinn frá fyrstu mínútu.
Grindvíkingar voru í nýjum búningum í kvöld, en á dögunum gerðu þeir samning við Geysi Green Energy sem er nú aðalstyrktaraðili Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Grindvíkingar byrjuðu betur og þrátt fyrir að spila öflugan varnarleik náðu þeir ekki að hrista Hamarsmenn alveg af sér og leiddu Grindvíkingar með sex stigum eftir 1. leikhluta, 23-17.
Í 2. leikhluta héldu Grindvíkingar áfram að auka forskotið. Adama Darboe kom með góða innkoma af bekknum og setti niður tvær þriggja stiga körfur og staðan í leikhlé var því 45-32, Grindvíkingum í vil.
Grindvíkingar héldu uppteknum hætti í 3. leikhluta en Hamars menn áttu í miklum erfiðleikum með að brjóta góða og agaða vörn Grindvíkinga á bak aftur og var staðan því 64-42 eftir 3. leikhluta og á brattan að sækja hjá Hamar.
Hamarsmenn bitu í skjaldarendur í síðasta fjórðungi og með góðum leikkafla minnkuðu þeir muninn niður í 11 stig. Grindvíkingar höfðu fram að því leyft varamönnum sínum að spila en eftir að byrjunarlið Grindavíkur kom aftur inn á völlinn var sigurinn aldrei í hættu og sigruðu 85-67. Verskuldaður sigur hjá Grindvíkingum staðreynd.
Jonathan Griffin átti góðan leik hjá Grindavík og var með 22 stig. Adama Darboe og Páll Axel Vilbergsson voru með 18 stig, og Páll Kristinsson með 15 stig, en hann tók einnig 10 fráköst. Hjá Hamar var Friðrik H. Hreinsson atkvæðamestur með 20 stig, Raed Mostafa 17 stig og George Byrd 12 stig. Alls tapaði Hamar 25 boltum í kvöld og það allt of mikið gegn sterku liði líkt og Grindavík.
Næsti leikur Grindavíkur er útileikur gegn Tindastól á fimmtudaginn kemur.
VF-Mynd/ Úr safni - Páll Kristinsson átti góðan leik í Grindavíkurliðinu í kvöld.