Grindavík úr leik í Borgunarbikarnum
2-1 ósigur gegn FH í Krikanum
Leik FH og Grindavíkur í 16 liða úrslitum Borgunarbikarsins var að ljúka með 2-1 sigri FH. Þar með hafa Grindvíkingar lokið keppni en FH fer áfram í 8 liða úrslitin.
Leikurinn var ekki nema 8. mínútna gamall þegar fyrsta mark leiksins datt í hús. Maciej Majewski í marki Grindavíkur felldi þá Steven Lennon og var vítaspyrna dæmd sem að Lennon skoraði sjálfur úr.
Steven Lennon var svo aftur að verki á 35. mínútu þegar FH fékk dæmda aðra vítaspyrnu sem að gestirnir mótmæltu nokkuð og höfðu nokkuð til síns máls því ekki virtsti hafa verið mikið um snertingu þegar leikmaður FH féll í teignum. Lennon þakkaði aftur á móti fyrir sig með því að skora úr spyrnunni og koma FH í 2-0 fyrir hálfleik.
Síðari hálfleikur var lítið fyrir augað og slökuðu heimamenn eilítið á klónni en Grindvíkingar nýttu sér það ekki nægilega vel. Þeir náðu þó að minnka muninn 3 mínútum fyrir leikslok þegar Hákon Ívar Ólafsson skoraði glæsilegt mark eftir að hafa verið nýkominn inná sem varamaður.
Lengra komust gestirnir ekki og 2-1 sigur FH-inga því staðreynd.