Grindavík tapar gegn ÍS
Grindavík tapaði fyrir ÍS í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld 52-42. Stúdínur, sem voru á heimavelli, náðu forystu í fyrri hálfleik og héldu henni allt til loka þrátt fyrir að leikur Grindavíkurstúlknanna hafi batnað mikið í seinni hálfleik. Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, var sáttur við frammistöðuna þrátt fyrir úrslitin, enda misstu þær lykilmenn úr liðinu fyrir leiktíðina og vantar hávaxna leikmenn. Baráttan var góð en slök hittni varð þeim dýrkeypt undir lokin og þær náðu aldrei að brúa bilið sem ÍS hafði náð í byrjun leiksins. Sólveig Gunnlaugsdóttir var stigahæst Grindvíkinga með 13 stig.
Pétur sagði að ef þær fengju sjálfstraustið í lag í sókninni og baráttan yrði eins og í dag kviði hann ekki fyrir næstu leikjum, en Grindavík heimsækir ÍR í næstu umferð.
Eftir þrjár umferðir eru Keflavík, Njarðvík og ÍS með flest stig í deildinni, eða fjögur, þar sem öll þrjú liðin hafa unnið tvo og tapað einum. Í næstu umferð mæta Grindvíkingar ÍR eins og áður sagði, Njarðvík sækir KR heim og Keflavík fær Stúdínur í heimsókn. Leikirnir fara fram laugardaginn 25. október.