Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík tapaði stórt
Mynd: Karfan.is.
Þriðjudagur 20. mars 2018 kl. 21:47

Grindavík tapaði stórt

- Tindastóll leiðir 2-0

Annar leikur Grindavíkur og Tindastóls fór fram í kvöld í átta liða úrslitum Domino´s-deildar karla. Leikurinn byrjaði brösulega hjá heimamönnum en eftir sex mínútur var Grindavík aðeins búið að skora tvö stig gegn sjö stigum Tindastóls. Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta skoraði Bullock tvö stig fyrir Grindavík en Tindastóll svaraði um hæl, sem var gangur fyrsta leikhluta og í raun og veru alls leiksins. Fátt gekk upp hjá heimamönnum í leikhlutanum og eftir hann var staðan 14-20 fyrir Tindastól en Jóhann Árni minnkaði muninn fyrir Grindavík á síðustu sekúndu leikhlutans.

Í öðrum leikhluta var nánast það sama upp á teningnum. Grindavík náði sér ekki á strik og þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var staða 33-43. Tindastóll náði alltaf að svara fyrir sig, alveg sama hvað leikmenn Grindavíkur gerðu en Ingvi Þór skoraði góðan þrist þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tindastóll leiddi í hálfleik: 39-48.

Þriðji leikhluti byrjaði af krafti og Grindavík saxaði lítillega á forystuna. Ingvi Þór setti niður þrist þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum, en sama sagan átti sér stað aftur og Tindastóll svaraði fyrir sig um hæl. Grindavík náði góðu róli þegar líða fór á leikhlutann og náði að minnka muninn í 53-59, þegar fjórar mínútur voru eftir af honum. Tindastóll komst síðan í 54-67 og Grindavík nýtti færin sín illa.

Sama sagan var í fjórða leikhluta og hinum þremur, Tindastóll raðaði niður stigunum. Þeir náðu forystunni fljótlega upp í 64-81 og reyndu Grindvíkingarnir hvað þeir gátu til að svara fyrir sig. Óli Ólafs setti niður þrist þegar ein og hálf mínúta var liðin af fjórða leikhluta og minnkaði þannig muninn fyrir heimamenn. Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum leiddi Tindastóll 68-87 og enn var sama sagan, ekkert fór niður hjá Grindavík á meðan að Stólarnir skoruðu hverja körfuna á eftir annari. Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum var staðan 68-98 fyrir Tindastól. Tindastóll rauf síðan hundrað stiga múrinn þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu, það var töluverð harka í leiknum og það má eiginlega segja að Tindastóll hafi skellt í lás í varnarleiknum í kvöld og Grindavík hafði fá svör við leik þeirra en lokatölur leiksins voru 83-114 fyrir Tindastól.

Myndir úr leiknum koma inn á Facebook síðu Víkurfrétta á morgun.

Stigahæstu leikmenn Grindavíkur voru Dagur Kár Jónsson 22 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 17 stig og 5 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 12 stig og 4 fráköst, J'Nathan Bullock 11 stig og 7 fráköst og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Stigahæstu leikmenn Tindastóls voru  Antonio Hester 28 stig og 7 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 26 stig, Axel Kárason 17 stig, Pétur Rúnar Birgisson 11 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar, Chris Davenport 9 stig og 5 fráköst og Hannes Ingi Másson 7 stig og 5 fráköst.