Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík tapaði öðrum leiknum sínum
Óli Baldur misnotaði víti og fékk rautt spjald í kjölfarið
Laugardagur 16. maí 2015 kl. 11:12

Grindavík tapaði öðrum leiknum sínum

1-0 tap gegn Haukum í Hafnarfirði í norðanátt og rigningu

Grindavík tapaði í gærkvöldi öðrum leik sínum í röð í 1. deild karla þegar liðið lá gegn Haukum á Schenkervellinum í Hafnarfirði, 1-0.

Mark Hauka kom á 51. mínútu þegar Björgvin Stefánsson komst einn í gegnum vörn Grindavíkur og afgreiddi boltann nokkuð snyrtilega í netið framhjá Benóný Þórhallssyni í marki gestanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar fengu svo gullið tækifæri til að jafna leikinn á 69. mínútu þegar Jósef Kristinn Jósefsson krækti í vítaspyrnu. Óli Baldur Bjarnason steig á punktinn en brást bogalistinn en Terrance William varð spyrnuna. Ekki vildi betur til en svo að William hélt ekki boltanum og barst boltinn eilítið út í teiginn þar sem að Óli Baldur gerði sig líklegan til að ná í frákastið en varð of seinn til þar sem að William náði að handsama boltann en Óli Baldur fór full harkalega í samstuð við markmanninn sem að lá eftir óvígur. Dómari leiksins sá sig knúinn til að vísa Óla Baldri af leikvelli með þráðbeinu rauðu spjaldi en nokkuð sauð uppúr á milli leikmanna beggja liða í kjölfarið.

Grindvíkingar voru heilt yfir betri aðilinn í leiknum og verðskulduðu meira en ekkert. Haukarnir fóru langt á baráttunni og voru að berjast fyrir hvorn annan allan leikinn sem að skilaði þeim þremur punktum þegar upp var staðið. 

Grindvíkingar eru sem áður segir stigalausir eftir fyrstu 2 leiki sumarsins en liðið mætir næst liði Gróttu á Grindavíkurvelli þann 23. maí, en í millitíðinni leikur liðið í Borgunarbikarnum gegn nágrönnum sínum í Þrótti Vogum en sá leikur fer fram á Grindavíkurvelli mánudaginn 18. maí.