Grindavík tapaði í Meistarakeppninni
Snæfell meistari meistaranna í kvennadeild
Grindvíkingar töpuðu gegn Snæfelli í Meistarakeppni kvenna í DHL höllinni í gær. Lokaúrslit urðu 70-60. Leikurinn var jafn framan af en Snæfellingar sigu fram úr í fjórða leikhluta og knúðu fram sigur. B-lið Keflavíkur spilaði sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna og töpuðu gegn KR, 70-66 en liðið er skipað yngri leikmönnum Keflavíkurliðsins.
Snæfellingar tefldu fram nýjum erlendum leikmanni, Taylor Brown, sem setti niður 29 stig í sínum fyrsta leik og lofar góðu fyrir Snæfellinga. Einnig spilaði Pálína Gunnlaugsdóttir sinn fyrsta leik fyrir Snæfell og var með 4 stig og 5 fráköst.
Sterkastar í liði Grindavíkur voru Ashley Grimes með 21 stig og 11 fráköst, María Ben Erlingsdóttir með 12 stig og 5 fráköst og Ingunn Embla Kristínardóttir með 10 stig og 6 fráköst.