Grindavík tapaði fyrir Fjarðarbyggð í hörkuleik
Njarðvík sigraði Hött fyrir austan
Íslandsmótið í 1. og 2. deild karla hófst í dag þar sem að Grindvíkingar lágu heima gegn Fjarðarbyggð og Njarðvíkingar gerðu góða ferð á Egilsstaði og tóku öll þrjú stigin sem í boði voru.
Í Grindavík var boðið uppá hörkuleik þar sem að Fjarðarbyggð hóf leikinn með miklum krafti og voru komnir í 0-2 forystu eftir aðeins 13 mínútna leik. Grindvíkingar léku svo manni fleiri frá og með 33. mínútu þegar Milis Ivankovic fékk að líta sitt annað gula spjald í liði gestanna.
Þremur mínútum síðar átti sér stað umdeilt atvik þegar markvörður Fjarðarbyggðar, Kile Kennedy, virtist sparka niður leikmann Grindavíkur eftir að hafa handsamað boltann eftir úthlaup. Kile fékk að líta gula spjaldið og dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu en frá sjónarhorni blaðamanns hefði Kennedy réttilega átt að fá að líta beint rautt spjald. Óli Baldur Bjarnason skoraði úr vítaspyrnunni þótt að téður Kennedy hefði verið hársbreidd frá því að verja frá honum.
Næstu mínútur voru hreint ótrúlegar þar sem að Grindvíkingar óðu gjörsamlega í færum og fékk markaskorarinn Óli Baldur Bjarnason nokkur dauðafæri til að jafna leikinn en honum brást bogalistinn nokkrum sinnum. Í stað þess að Grindvíkingar refsuðu gestunum voru það þeir sem náðu að auka muninn í 1-3 eftir að hafa fengið dæmda vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Hreint magnaður fyrri hálfleikur!
Í síðari hálfleik voru Grindvíkingar með tögl og hagldir á leiknum, sköpuðu sér urmul af færum og ekki síst þegar hinn síungi Scott Ramsey kom inná sem varamaður. Kile Kennedy átti stórleik í marki gestanna og varði allt sem kom á rammann, sem var heill hellingur. Lokatölur í Grindavík urðu 1-3.
Grindvíkingar geta nagað sig í handabökin eftir leikinn en liðið hefði þurft að nýta þau færi sem þeim gáfust en liðið spilaði manni fleiri í 60 mínútur og voru með boltann ca. 90% af leiknum.
Grindvíkingar mæta næst liði Hauka á Schenkervellinum n.k. föstudag.
Í 2. deild karla sóttu Njarðvíkingar þrjú góð stig austur á Egilsstaði. Eina mark leiksins kom á 29. mínútu en það var Theódór Guðni Halldórsson sem það gerði.
Njarðvíkingar fá Tindastól í heimsókn í næstu umferð á Njarðtaksvöllinn en leikurinn fer fram n.k. laugardag.
Frá leik Hattar og Njarðvíkur fyrr í dag - mynd: umfn.is/fotbolti