Grindavík steinlá í Ljónagryfjunni
Njarðvík tók á móti Grindavík í Domino´s- deild karla í körfu í kvöld og sendu Grindvíkinga heim með sárt ennið annan leikinn í röð en Njarðvík vann lið Grindavíkur í sextán liða úrslitum Maltbikarsins. Lokatölur leiksins voru 97-75.
Eftir fyrsta leikhluta stóðu leikar 27-24 fyrir Njarðvík og í seinni hálfleik var staðan 44- 48 fyrir Grindavík. Eftir þriðja leikhluta stóðu leikar 74- 62 fyrir Njarðvík og náðu Grindvíkingar sér ekki á strik í fjórða leikhluta og fóru heim með tuttugu og tveggja stiga tap og annan ósigurinn í Ljónagryfjunni í röð.
Eftir leik kvöldsins er Njarðvík í 2.-4. sæti deildarinnar ásamt Keflavík og ÍR og Grindavík er í 5.-7. sæti ásamt Haukum og KR.
Stigahæstu leikmenn Njarðvíkur voru Oddur Rúnar Kristjánsson með 22 stig. Terrell Vinson með 19 stig og 7 fráköst, Logi Gunnarsson með 12 stig og Maciek Sanislav var með 12 stig og 5 stoðsendingar.
Stigahæstu lekmenn Grindavíkur voru Ólafur Ólafsson með 19 stig og 8 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson með 13 stig, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 12 stig og 13 fráköst og Ómar Örn Sævarsson með 10 stig.
Keflavík, Njarðvík og Grindavík leika öll í Domino´s- deildinni á sunnudaginn en eftir þá umferð er landsleikjafrí í efstu deild og hefst deildin aftur í byrjun desember.