Grindavík spáð falli: Keflavík í áttunda og konurnar í fjórða
Nýliðum Grindavíkur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu var í dag spáð falli í 1. deild að lokinni leiktíð á árlegum kynningarfundi Landsbankadeildanna. Karlaliði Keflavíkur er spáð 8. sæti í deildinni en kvennaliði félagsins er spáð 4. sæti í Landsbankadeild kvenna. Þá er Valsmönnum spáð Íslandsmeistaratitlinum í karlaflokki annað árið í röð og bikarmeisturum KR í kvennaflokki spáð sigri í Landsbankadeild kvenna. Það eru fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn liðanna í Landsbankadeildinni sem standa að spánni.
Fram kom á kynningarfundinum að miðaverð á völlinn mun hækka í sumar úr 1200 kr. í 1500 kr. en hægt verður að kaupa miða á leiki í Landsbankadeildinni á kr. 1200 á internetinu. Áhorfendamet var slegið í Landsbankadeildinni á síðustu leiktíð en markaðsstarf Landsbankans er jafnan stærsta markaðsherferð Landsbankas ár hvert. Næstu 23 vikur verða því undirlagðar í knattspyrnu en 132 leikir fara fram í Landsbankadeild karla sem skipuð verður 12 liðum og 90 leikir í Landsbankadeild kvenna sem skipuð verður 10 liðum.
Spárnar
Landsbankadeild kvenna
- KR
- Valur
- Breiðablik
- Keflavík
- Stjarnan
- Fylkir
- Þór/KA
- Afturelding
- HK/Víkingur
- Fjölnir
Landsbankadeild karla
- Valur
- FH
- KR
- ÍA
- Breiðablik
- Fylkir
- Fram
- Keflavík
- HK
- Þróttur Reykjavík
- Fjölnir
- Grindavík
Keflavík mætir Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik sínum á Sparisjóðsvellinum í Keflavík kl. 16:15 laugardaginn 10. maí en það er enginn annar en Kristinn Jakobsson sem dæma mun leikinn sem sýndur verður í beinni á Stöð 2 Sport. Tölfræðin segir að Kristinn muni líkast til dæma vítaspyrnu á Keflavík í leiknum og verður fróðlegt að sjá hvort það gangi eftir.
Grindvíkingar heimsækja KR í sínum fyrsta leik í Vesturbæinn á laugardag og hefst leikur liðanna á slaginu 14:00 á KR-velli. Landsbankadeild kvenna hefst eftir helgi en Keflavík tekur á móti bikarmeisturum KR í Keflavík kl. 19:15 þriðjudaginn 13. maí.
VF-Myndir/ [email protected] – Efri mynd: Fyrirliðar liðanna í Landsbankadeild kvenna. Neðri mynd: Fyrirliðar liðanna í Landsbankadeild karla.