Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík sótti sigur austur og öruggt hjá Keflavík
Remy Martin gerði 33 stig fyrir Keflavík í gær. Myndir úr safni VF/JPK
Föstudagur 5. janúar 2024 kl. 09:20

Grindavík sótti sigur austur og öruggt hjá Keflavík

Suðurnesjaliðin eru ennþá með fullt hús stiga á nýju ári en í gær unnu bæði Grindavík og Keflavík sína leiki í Subway-deild karla í körfuknattleik. Keflavík er komið í þriðja sæti deildarinnar en Grindavík er í því níunda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Dedrick Basile var stigahæstur Grindvíkinga í gær og sullaði niður nokkrum þristum.

Höttur - Grindavík 71:78

Fyrsti leikhluti var jafn framan af en Grindvíkingar gáfu í undir lokin, skoruðu átta stig í röð og kláruðu fjórðunginn með níu stiga forskot.

Grindavík hélt áfram að hamra járnið sem var sjóðheitt hjá þeim og byggðu upp tuttugu stiga forystu í öðrum leikhluta. Þeir gulu settu niður fimm þrista í öðrum leikhluta, af þeim átti Dedrick Basile þrjá, Ólafur Ólafsson einn og Daniel Mortensen einn. Staðan þægileg fyrir Grindvíkinga í hálfleik, 27:47.

Í seinni hálfleik bitu heimamenn frá sér og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu þeir minnkað muninn niður í átta stig (44:52). Þá fóru þristarnir aftur að detta hjá Grindvíkingum; Mortensen, Basile, Kristófer Gylfason og Arnór Helgason settu niður einn þrist hver og Ólafur Ólafs var með tvo. Grindavík hafði því þrettán stiga forystu fyrir síðasta leikhlutann (52:65).

Hattarmenn gáfu allt sitt í fjórða leikhluta og náðu muninum niður í eitt stig (71:72) en þá sögðu Grindvíkingar „hingað og ekki lengra“ og skoruðu sex síðustu stigin.

Derrick Basile var öflugastur Grindvíkinga með nítján stig og níu stoðsendingar, Daniel Mortensen var með fjórtán stig, Julio De Asisse og Ólafur Ólafsson tólf stig hvor og Valur Orri Valsson átta, Arnór Tristan Helgason átta og Kristófer Gylfason þrjú.

Keflavík - Hamar 100:88

Keflvíkingar tefldu fram nýjum leikmanni í gær, Danero Thomas, en hann lék með liði Hamars fyrri hluta tímabils og mætti því sínum fyrrum félögum í gærkvöldi.

Leikurinn var í höndum Keflvíkinga allan tímann og þeir byggðu upp gott forskot í fyrsta leikhluta (31:17).

Annar leikhluti var jafnari en þá voru heimamenn kannski full værukærir á tímum en fóru þó inn í hálfleikinn með fimmtán stiga forystu (52:37).

Keflavík náði 24 stiga forystu í þriðja leikhluta (77:53) og þá hefði það bara átt að vera formsatriði að klára leikinn en Hamarsmenn gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í tólf stig (98:86). Keflvíkingar unnu að lokum tólf stiga sigur og eru komnir í upp að hlið Þórs Þorlákshöfn í annað sæti deildarinnar.

Remy Martin fór fyrir liði heimamanna með 33 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar, næstur honum kom Sigurður Pétursson með sautján stig, Halldór Garðar Hermannsson með sextán og Igor Maric með tólf.