Grindavík skellti Íslandsmeisturunum og Keflavík steinlá á Hlíðarenda
Suðurnesjaliðin léku öll á útivelli í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik þar sem Njarðvík og Grindavík unnu sína leiki á meðan Keflavík þurfti að lúta í gras fyrir toppliði Vals. Njarðvíkingar eru í öðru sæti deildarinnar með tuttugu stig, Keflavík átján og Grindavík er komið upp fyrir Tindastól og Hött í sjöunda sæti með sextán stig.
Höttur - Njarðvík 85:88
Sterkir Hattarmenn byrjuðu leikinn betur og náðu sjö stiga í fyrsta leikhluta (20:13) en Njarðvíkingar minnkuðu muninn í þrjú stig áður en leikhlutinn var allur (24:21).
Áfram héldu Hattarmenn að leiða leikinn og það var ekki fyrr en undir miðjan annan leikhluta að Njarðvík náði að snúa leiknum sér í vil og leiddi í hálfleik með fjórum stigum (52:56).
Fyrri hluti þriðja leikhluta var hnífjafn og spennandi og liðin skiptust á að taka forystu en í stöðunni 61:62 setti Þorvaldur Orri Árnason niður þrist og fylgdi því eftir með tveimur stigum skömmu síðar, Njarðvík komið með sex stiga forskot sem hélst út leikhlutann (63:69).
Heimamenn settu kraft í leik sinni í upphafi fjórða leikhluta og náðu að minnka muninn í eitt stig (68:69). Maciej Baginski skoraði fyrstu stig Njarðvíkinga í fjórða leikhluta en þristur frá Hetti jafnaði leikinn. Maciej svaraði með þristi og Veigar Páll Alexanderson sömuleiðis, aftur komið sex stiga forskot (71:77). Hattarmenn skoruðu þá sjö stig án þess að Njarðvík næði að svara og heimamenn komnir yfir (78:79).
Þá var komið að Dwayne Lautier-Ogunleye að setja mark sitt á leikinn, hann setti niður tvö vítaköst til að ná forystu á nýjan leik og því fylgdi því eftir með tveimur þristum (82:85). Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að ná Njarðvíkingum en þeir gáfu forystuna ekki eftir og höfðu að lokum góðan sigur (85:88).
Dwatbe Lautier-Ogunleye var stigahæstur Njarðvíkinga með 25 stig, Chaz Williams var með fjórtán, Dominykas Milka þrettán og Mario Matasovic tólf. Þá var Maciej Baginski með níu stig, Þorvaldur Orri Árnason átta og Veigar Páll Alexandersson sjö.
Tindastóll - Grindavík 96:101
Heimamenn í Síkingu á Sauðárkróki náðu ágætri byrjun og leiddu með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta (30:20). Þeir náðu fjórtán stiga forystu undir lok annars leikhluta (53:39) en Deandre Kane átti síðasta orðið fyrir hálfleik þegar hann setti niður þrist, munaði því tólf stigum á liðunum í hálfleik (54:42).
Þriðji leikhluti var jafn, Grindvíkingar náðu ekki að vinna upp forskot heimamanna sem héldu muninum alltaf í um og yfir tíu stigum. Þegar fjórði leikhluti fór af stað áttu heimamenn fjórtán stig á gestina (75:61) en Grindvíkingar mættu baráttuglaðir til leiks í fjórða leikhluta og gáfu sig alla í leikinn. Tindastóll hélt sama mun fram yfir miðjan leikhlutann en með gríðarlegri baráttu tóku Grindvíkingar að sækja að þeim undir lokin.
Þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir af leiknum var staðan 86:72 heimamönnum í vil en þá lokuðu Grindvíkingar vörninni og Stólarnir skoruðu ekki í fjórar mínútur á meðan Grindavík setti niður fimmtán stig og breyttu stöðunni í 86:87. Það voru svo Grindvíkingar sem sigldu hörkusigri í höfn (96:101),
Deandre Kane var stigahæstur hjá Grindavík með 27 stig, þá kom Juliuo De Asisse með 21, Ólafur Ólafsson með nítján, Valur Orri Valsson fjórtán, Dedrick Basillé tíu, Daniel Mortensen fjögur og Kristófer Gylfason með þrjú stig.
Valur - Keflavík 105:82
Keflvíkingar sáu aldrei til sólar þegar þeir mættu toppliði Vals á Hlíðarenda í gær. Valsarar byrjuðu betur og höfðu fjórtán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (28:14).
Keflavík byrjaði annan leihluta á að vinna á forskot Vals en heimamenn leyfðu það ekki lengi og fjóru inn í hálfleikinn með átján stiga forystu (52:34).
Valur hafði betri tök á leiknum og Keflavík var aldrei nálægt því að vinna upp muninn. Að lokum fór svo að Valur vann með 23 stigum (105:82) og eftir tapið er Keflavík búið að missa Njarðvík og Þór Þorlákshöfn upp fyrir sig á stöðutöflunni.
Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal sem Karfan.is tók við Pétur Ingvarsson eftir leik Vals og Keflavíkur.