Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík sigrar í kaflaskiptum baráttuleik
Föstudagur 12. nóvember 2004 kl. 23:22

Grindavík sigrar í kaflaskiptum baráttuleik

Grindavík lagði Tindastól að velli í Intersport-deildinni í kvöld, 102-95. Leikurinn, sem fór fram í Röstinni í Grindavík, var lítið fyrir augað en bauð upp á þeim mun meiri baráttu og spennu.

Gestirnir byrjuðu betur og byggðu rólega upp forskot þar sem Svavar Birgisson og Bethuel Fletcher áttu mjög góðan leik. Darrel Lewis, prímusmótorinn í Grindavíkurliðinu lenti snemma í villuvandræðum og náði aðeins að spila í 3 mínútur í fyrsta leikhluta og gat því lítið beitt sér. Félagar hans voru einnig óheppnir með skotin sín og klikkuðu úr ótrúlegustu færum.

Undir lok fyrsta fjórðungs var munurinn orðinn 10 stig, en heimamenn náðu að minnka hann um eitt stig áður en flautan gall, staðan 23-32.

Nokkuð lifnaði yfir Grindvíkingum í 2. leikhluta, enda var Lewis kominn inná og Pál Axel fór að finna sig betur. Munurinn minnkaði stig fyrir stig og Páll Axel jafnaði loks leikinn um miðjan fjórðunginn. Eftir það var leikurinn í járnum en Grindavík hafði naumt forskot þegar liðin héldu inn í hálfleik, 51-48. Vörnin var farin að virka og lykilmenn Stólanna höfðu sig hæga.

Í 3. leikhluta bar Lewis liðið á bakinu og í hönd fóru óhemju jafn leikur þar sem liðin voru hnífjöfn og aldrei munaði nema 2 eða 3 stigum á liðunum.

Í lokafjórðungnum virtust Grindvíkingar loksins vera búnir að taka sig saman í andlitinu og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 87-79 á skömmum tíma. Enn varð þó viðsnúningur í leiknum og með mikilli seiglu og krafti komust Stólarnir enn og einu sinni yfir, 91-93. Þá tóku Páll Axel og Lewis til sinna ráða. Páll setti rosalegt 3ja stiga skot, koldekkaður, þegar 2 mínútur voru eftir. Lewis bætti annarri slíkri við stuttu síðar og eftir að Páll hafði gert 4 stig til viðbótar var leikurinn búinn og tvö mikilvæg stig í húsi fyrir Grindavík.

„Tindastólsmenn komu okkur mjög á óvart. Þeir komu vel undirbúnir og spiluðu af krafti,“ sagði Kristinn Friðriksson, þjálfari Grindvíkinga. Hann bætti því við að Lewis og Páll hefðu bjargað þeim á lokasprettinum. „Þeir komu á ögurstundu og redduðu okkur með góðri hjálp. Mér fannst við aldrei ná að sýna nógu góðan leik. Auðveldu skotin voru ekki að detta, við vorum ekki alveg nógu þolinmóðir í sókninni og vörnin var arfaslök, en þetta var sigur og maður biður ekki um mikið meira.“

Grindavík er nú í 5.-8. sæti deildarinnar með þrjá sigra og þrjú töp.

Tölfræði leiksins
VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024