Grindavík sigrar í æsispennandi leik
Grindvíkingar unnu gríðarlega mikilvægan heimasigur á Keflavík í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld. Lokastaðan var 106-105 eftir framlengdan leik og hreint út sagt ótrúlegar lokasekúndur og leiða Grindvíkingar því 2-1 í einvíginu.
Á upphafsmínútum leiksins voru varnir liðanna í aðalhlutverki, ólíkt síðasta leik, þar sem menn fóru sér í engu óðslega, en Keflvíkingar náðu frumkvæðinu fljótt.
Grindvíkingar náðu þó að jafna leikinn tvisvar fyrir lok fjórðungsins, en Keflavík skoraði síðustu fjögur stigin og leiddi 21-25 að honum loknum.
Keflvíkingar mættu trítilóðir út á gólfið í annan leikhluta þar sem þeir völtuðu hreinlega yfir heimamenn og höfðu náð 18 stiga forskoti áður en langt um leið. Grindvíkingarnir áttu í mestu erfiðleikum með að finna glufu á vörn gestanna og gerðu sig seka um mörg byrjendamistök þar sem þeir voru að missa bolta að óþörfu og láta dæma á sig skref hvað eftir annað. Þeir misstu samtals 19 bolta í fyrri hálfleik og voru heppnir að missa leikinn ekki algerlega úr höndum sér.
Stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson kom sínum mönnum á bragðið með tveimur 3ja stiga körfum og nokkrum vítum og virtust Keflvíkingar vera að klára leikinn.
Heimamenn voru þó ekki dauðir úr öllum æðum þar sem þeir tóku 10-3 rispu fyrir leikhlé og unnu muninn niður í 11 stig, 46-55.
Grindvíkingar héldu upprisunni áfram í upphafi seinni hálfleiks og minnkuðu muninn niður í 5 stig með tveimur körfum. Nær komust þeir þó ekki strax að stórum hluta til vegna frammistöðu Derrick Allen, sem skoraði 14 stig í þriðja leikhluta einum, og var forystan enn Keflvíkinga fyrir fjórða leikhluta, 69-77.
Alger umpólun varð á leiknum eftir það þar sem frískir heimamenn léku við hvern sinn fingur og komust yfir, 85-77, eftir 18-2 kafla þar sem Anthony Jones og hinn magnaði Darrel Lewis fóru á kostum.
Upp frá því var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að leiða þar til 15 sekúndur lifðu af leiknum. Þá höfðu Keflvíkingar eins stigs forskot, 93-94, en Lewis átti tvö vítaskot. Hann hitti einungis úr öðru og varð því að grípa til framlengingar.
Upphaf framlengingarinnar var þrungið spennu, eins og gefur að skilja, og Nick Bradford misnotaði fyrsta skotið. Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði Grindvíkinga, lét sitt hinsvegar ekki eftir liggja og hitti úr ótrúlegu 3ja stiga skoti og bætti tveimur vítum við í næstu sókn. Keflvíkingar héngu engu að síður inni í leiknum og voru einungis stigi undir þegar Pétur Guðmundsson setur niður rosalegt 3ja stiga skot þegar ein mínúta er eftir af leiknum og breytir stöðunni í 106-102.
Þá héldu flestir að leikurinn væri úti, en Magnús svaraði fyrir gestina með engu síðra skoti og eftir það unnu Keflvíkingar boltann á ný og höfðu færi á að gera út um leikinn, en Derrick Allen, sem hafði átt fyrirtaksleik eins og vanalega, hitti ekki úr opnu stökkskoti við endalínuna og voru úrslit því ráðin og Grindavík hefur tækifæri á að gera út um viðureignina í leik liðanna í Keflavík á sunnudaginn.
Hér má finna tölfræði leiksins
VF-mynd: Hilmar Bragi