Grindavík sigraði Þór
Grindavík tók á móti Þór Akureyri í Mustad höllinni í Grindavík í kvöld þegar lokaumferð Domino´s-deildar karla fór fram. Þór mun leika í 1. deildinni næsta haust á meðan Grindavík hefur verið á góðri siglingu undir lok tímabilsins. Þegar flautað var til hálfleiks var Grindavík aðeins tveimur stigum yfir 49-47 en töluvert var um tapaða bolta og kæruleysi í fyrri hálfleiknum hjá báðum liðum.
Þór komst yfir í fjórða leikhluta 80-82 og var Dagur Kár hetja heimamanna og skoraði nánast öll stig Grindavíkur á meðan að vörnin var ekki upp á sitt besta. Grindavík bretti upp ermarnar á lokamínútum leiksins og náði að komast tíu stigum yfir þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum og unnu öruggan sigur 104-89.
Grindavík endaði í sjötta sæti deildarinnar og mæta þeir Bikarmeisturum Tindastóls í úrslitakeppninni.
Stigahæstu leikmenn Grindavíkur voru Dagur Kár Jónsson 26 stig, 5 fráköst og7 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 17 stig og 6 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 15 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, Þorsteinn Finnbogason 13 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12 stig og 8 fráköst.