Grindavík sigraði Stjörnuna örugglega
Grindavík sigraði Stjörnuna örugglega 103-91 í Iceland Express deild karla í Röstinni í kvöld. Grindavík leiddi leikinn frá fyrstu mínútu og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Eftir sigurinn eru Grindvíkingar komnir með 20 stig í þriðja sæti deildarinnar meðan að Stjarnan situr í tíunda sæti með 10 stig.
Grindvíkingar ætluðu greinilega ekki að stíga sama feilspor og þeir stigu á móti Þór Ak. í síðustu umferð og mættu einbeittir til leiks. Þeir náðu strax yfirhöndinni og var Páll Axel Vilbergsson sjóðandi heitur á fyrstu mínútunum og var kominn með 12 eftir fjögra mínútna leik. Stjarnan átti í miklum erfiðleikum í sókninni og vörnin réð ekkert við frábæran sóknarleik Grindvíkinga. Sóknarnýting þeirra gulklæddu hreint út sagt
frábær eftir fyrsta leikhluta og leiddu Grindvíkingar með 22 stigum, 38-16.
Það var allt annað að sjá til Stjörnumanna í öðrum leikhluta og varnarleikur liðsins hrökk í gang og náðu Stjörnumenn að minnka munninn jafnt og þétt eftir því sem leið á leikhlutann. Stjörnumenn börðust af miklu kappi og náðu að minnka munninn um 10 stig og var staðan því 57-45 í hálfleik.
Stjarnan hélt áfram þar sem frá var horfið úr fyrri hálfleik og hélt áfram að minnka munninn og lægst fór hann niður í 8 stig. Með mikilli seiglu náðu Grindvíkingar hins vegar að aftur að auka munninn og kláruðu í raun leikinn með því að fara inn í síðasta leikhluta í stöðunni 87-66.
Það var því aðeins formsatriði fyrir Grindvíkinga að klára leikinn, rétt eins og þeir gerðu og leyfðu þeir Stjörnumönnum aldrei að komast of nálægt sér. Liðin skiptust á að skora og gat Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, leyft sér að stilla upp liði Grindavíkur með fimm bræður inn á vellinum síðustu tvær mínútur leiksins. Þannig voru þeir Jóhann, Þorleifur og Ólafur Ólafssynir og Páll Axel og Ármann Ö. Vilbergssynir allir inn á í liði Grindavíkur og kátína áhorfenda Grindavíkur leyndi sér ekki.
Páll Axel var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 24 stig og 5 stoðsendingar, Jonathan Griffin var með 19 stig og 8 fráköst, og Páll Kristinsson var með 18 stig og stal 6 boltum og var maður vallarins. Hjá Stjörnumönnum voru þeir Dimitar Karadzovski og Jovan Zdravevski atkvæðamestir með 22 stig, og Fannar F. Helgason var með 15 stig. Athyglisvert þótti að Bandaríkjamaður Stjörnunnar, Calvin Roland, lék aðeins 13 mínútur og var afspyrnu slakur. Spurning hvort að Stjörnumenn ætli sér að skipta um enn einn Bandaríkjamanninn áður en tímabilinu lýkur?
Grindvíkingar mæta Hamar úr Hveragerði á mánudaginn næstkomandi á útivelli meðan að Stjarnan tekur á móti Snæfelli á heimavelli sínum í Ásgarði á sunnudaginn.
VF-Mynd/ Úr safni - Páll Axel Vilbergsson fyrirliði Grindavíkur var stigahæstur sinna manna í kvöld.