Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík sigraði Stjörnuna með öguðum sóknarleik
Fimmtudagur 17. mars 2011 kl. 22:08

Grindavík sigraði Stjörnuna með öguðum sóknarleik

Grindvíkingar byrjuðu úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í körfubolta frábærlega og lögðu Stjörnuna í kvöld 90-83 á heimavelli þeirra gulu. Grindvíkingar voru ekki mjög sannfærandi í síðustu leikjunum fyrir úrslitakeppni en hafa greinilega tekið sig taki og rifið sig upp af hælunum.

Leikurinn byrjaði með látum þar sem bæði lið voru að bomba þriggjastiga körfum. Grindvíkingar byrjuðu þó mun betur og stjórnuðu leiknum allan fyrri hálfleikinn. Stjörnumenn náðu þó að minnka það góða forskot sem Grindvíkingar voru komnir með, rétt fyrir hálfleik og voru lokatölur í fyrrihálfleik 45-38, heimamönnum í vil.

Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, tuskaði sína menn verulega til í hálfleik og mættu þeir mun sprækari í seinni hálfleikinn. Þeir náðu strax að minnka muninn fyrstu mínúturnar og komust svo yfir fyrsta skiptið í leiknum þegar aðeins sjö mínútur voru til leiksloka. Grindvíkingar voru þó ekki á því að hleypa þeim neitt langt fram úr sér og tóku stjórn aftur á leiknum en Páll Axel Vilbergsson var þar fremstur í flokki og setti þrjá þrista í röð fyrir heimamenn. Þá lifnaði aldeilis yfir þeim gulu og kláruðu leikinn nokkuð sannfærandi.

Mladen Soskic var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld með 20 stig. Honum fast á eftir var Ryan Pettinella með 19 stig og 8 fráköst, Páll Axel Vilbergsson með 18 stig, þar af 4 þrista, Ólafur Ólafsson með 17 stig og 7 stoðsendingar og Nick Bradford með 12 stig, 7 stoðsendingar og 10 fráköst. Góður leikur hjá Bradford og má segja hans besti frá því hann steig úr flugvélinni. Sigahæstur í liði Stjörnunnar og í leiknum var Justin Shouse með 21 stig.

Svipmyndir og viðtöl frá leiknum koma inn á morgun ásamt ljósmyndasafni.

[email protected]



Mladen Soskic var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld með 20 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024