Grindavík sigraði örugglega í fyrsta leik Suðurnesjaslagsins
Grindvíkingar höfðu öruggan sigur í fyrsta leik sínum gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta í kvöld, 94-67. Grindvíkingar leiddu allt frá upphafi og sigurinn var aldrei í hættu. Mest fór munurinn í 30 stig og stigaskor dreyfðist vel á milli manna í Grindavíkurliðinu og alls komust 10 menn á blað. Þeirra stigahæstur var J´Nathan Bullock með 19 stig.
Grindavík skoraði 29 stig í fyrsta leikhluta og gáfu tóninn fyrir það sem var í vændum. Áfram höfðu þeir yfirhöndina og í hálfleik var forysta þeirra orðin 14 stig og þeir virkuðu afar sannfærandi í flestum aðgerðum sínum. Munurinn fór svo í 20 stig í þriðja leikhluta og þannig var staðan nánast til leiksloka þrátt fyrir að 30 stig hafi skilið liðin að á tímabili. Eins og áður segir voru margir leikmenn að skila góðu framlagi hjá Grindvíkingum og þeir nýttu sér vel breidd liðsins.
Hjá Njarðvík voru það helst erlendu leikmennirnir Echols og Holmes sem létu að sér kveða en reynsluboltinn Páll Kristinsson var einnig drjúgur.
Næsti leikur liðanna er í Njarðvík á sunnudag klukkan 19:15.
Stigin:
Grindavík: J'Nathan Bullock 19/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13/4 fráköst, Ryan Pettinella 10, Giordan Watson 9/12 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/6 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4, Ólafur Ólafsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Ármann Vilbergsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
Njarðvík: Travis Holmes 20/5 fráköst, Cameron Echols 18/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 9, Páll Kristinsson 8/7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Oddur Birnir Pétursson 2/5 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.
Áhorfendur: 463
Bullock var öflugur að vanda
Myndir Páll Orri Pálsson