Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

  • Grindavík sigraði annan deildarleikinn í röð
    Berglind Ósk Kristjánsdóttir skoraði sigurmarkið
  • Grindavík sigraði annan deildarleikinn í röð
Mánudagur 3. júlí 2017 kl. 13:49

Grindavík sigraði annan deildarleikinn í röð

Mórallinn í Grindavíkurliðinu er mjög góður segir Berglind Ósk sem skoraði sigurmarkið

Grindavík sigraði Hauka 2:1 í Hafnafirði í gær í Pepsi-deild kvenna. Fyrsta markið kom á 12. mínútu og var það Marjani Hing-Glover sem skoraði markið fyrir Hauka. Rilany Aguiar Da Silva jafnaði fyrir Grindavík á 44. mínútu og Berglind Ósk Kristjánsdóttir gerði sigurmarkið á 57. mínútu. Það reyndist vera lokamarkið og því var niðurstaðan 2:1, Grindavík í vil. 

Þetta er annar sigur Grindavíkur í röð. Þær eru komnar í 7. sæti deildarinnar með tólf stig, sex stigum frá KR sem er í 8. sæti. Næsti leikur er ekki fyrr en 10. ágúst við KR. Þetta langa hlé er vegna þátttöku Íslands í EM kvenna sem fer fram í Hollandi 16. júlí til 6. ágúst.

Við heyrðum í Berglindi Ósk Kristjánsdóttir sem skoraði sigurmarkið í leiknum. 
Hún byrjaði sinn knattspyrnuferil með Völsung á Húsavík og hefur einnig leikið með Haugar frá Haugesund í fyrstu deildinni í Noregi.

„Ég flutti til Grindavíkur um áramótin frá Stavanger. Í byrjun fór ég á æfingar hjá Grindavík aðallega til þess að kynnast nýju fólki og fá góða hreyfingu. Ég hafði í raun ákveðið að hætta að spila fótbolta eftir sumarið 2015, en þegar ég byrjaði aftur á fullu með Grindavík þá fann ég hversu mikið ég saknaði þess að spila fótbolta. Mórallinn í Grindavíkurliðinu er mjög góður mér líður vel að spila með Grindavík.”

„Ég hef spilað ýmsar stöður í Grindavíkurliðinu. Ég er hér til að spila fótbolta og geri mitt besta í þeirri stöðu sem ég er sett í hverju sinni. Í sumar hef ég aðallega spilað stöðu bakvarðar en áður en ég gekk til liðs við félagið hafði ég alltaf verið í sókninni. Í síðasta leik á móti Haukum fékk ég tækifæri á að spreyta mig frammi. Tilfinningin var mjög góð og ekki versnaði hún eftir að  ég skoraði markið.”

„Nú er hlé framundan hjá okkur sem fer í æfingar og bæta það sem bæta þarf. Það er ýmislegt sem þarf að gera betur en ég hef fulla trú á að við komum sterkari inn í seinni hluta mótsins, ekki síst þegar við fáum Thaisu til baka en hún er mikilvægur hlekkur í liðinu“ sagði Berglind að lokum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Myndir: fotbolti.net