Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík setti Skallana á kúpuna í Röstinni
Fimmtudagur 3. apríl 2008 kl. 23:24

Grindavík setti Skallana á kúpuna í Röstinni

Félagarnir Þorleifur Ólafsson og Páll Axel Vilbergsson gerðu 55 af 93 stigum Grindavíkur í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar. Grindavík var ávallt í bílstjórasætinu gegn Skallagrím í oddaleiknum í kvöld og urðu lokatölurnar 93-78. Það verða því Grindavík og Snæfell sem mætast í undanúrslitum og hinsvegar Keflavík og ÍR.

Strax á fyrstu mínútum leiksins var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Bæði utan vallar sem innan. Ken Webb þjálfari Skallagríms og Adama Darboe leikstjórnandi Grindavíkur lentu í smá rifrildi þegar Grindavík átti innkast við bekk Skallagríms og ljóst að hugarstríðið var í fullum gangi en þetta blessaðist og leikar héldu áfram eftir nokkur vel valin orð.

Jafnt var á með liðunum framan af fyrsta leikhluta uns þeir Þorleifur Ólafsson og Helgi Jónas Guðfinnsson gerðu tvo þrista í röð og komu Grindavík í 16-8. Grindvíkingar léku af mikilli hörku í kvöld og neyddu gestina oft til þess að taka erfið skot. Páll Axel Vilbergsson rak svo síðasta naglann í fyrsta leikhluta með flautuþrist sem fór í spjaldið og ofan í og staðan 29-15 fyrir heimamenn.

Borgnesingar hertu aðeins tökin í vörninni í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í 36-26 með þriggja stiga körfu en skömmu síðar kveikti maður kvöldsins í heimamönnum. Þorleifur Ólafsson stal þá boltanum af Allan Fall, brunaði upp völlinn og tróð með miklum tilþrifum sem gladdi margan áhorfandann í Röstinni. Troðslan var glæsileg og ekki laust við að Þorleifur væri að minna troðslumeistara Íslands og liðsfélaga sinn, Ólaf bróður sinn, á að hafa sig hægan í háloftunum því Þorleifur hefði líka loftferðaleyfi.

Liðin héldu til hálfleiks í stöðunni 45-31 fyrir Grindavík þar sem Páll Axel var með 16 stig hjá Grindavík og Darrell Flake 12 í liði Skallagríms.

Grindavík náði fljótt 20 stiga forstkoti í þriðja leikhluta en eins og viljað hefur loða við liðið tókst þeim ekki að halda þeim mun. Darrell Flake var að vanda magnaður í teignum fyrir Skallagrím og voru gestirnir duglegir að dæla boltanum til hans. Borgnesingar klóruðu í bakkann og staðan 65-53 fyrir fjórða leikhluta.

Þó gestirnir hafi komist nærri og minnkað muninn í 6 stig í fjórða leikluta, 73-67, þá voru það heimamenn sem höfðu undirtökin. Þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka fékk Axel Kárason sína fimmtu villu en hann hafði verið grimmur í vörninni fyrir gestina. Við brotthvarf Axels virtist endanlega allur vindur úr gestunum og heimamenn kláruðu dæmið með 15 stig sigri, 93-78.

Heilt yfir voru Grindvíkingar að leika vel en manna bestur var Þorleifur Ólafsson með 32 stig og 4 fráköst en kappinn tróð tvívegis í leiknum með miklum tilþrifum. Þorleifur setti niður 10 af 12 teigskotum sínum og 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum sem er frábær nýting. Þá skal ekki látin ótalin elja leikmannsins í vörninni en Allan Fall átti í stökustu vandræðum með það að koma boltanum upp völlinn í kvöld.+

Páll Axel var með 23 stig hjá Grindavík, Helgi Jónas 12, Jamaal Williams 10 og Adama Darboe gerði 9.
Darrell Flake bar af í liði Skallagríms með 25 stig og 14 fráköst og var illur viðureignar. Milojica Zekovic gerði 23 stig og tók 8 fráköst. Allan Fall gerði 11 stig en aðrir leikmenn voru ekki nægilega beittir í sókninni.

Skotnýting Grindvíkinga var eftirtektarverð í kvöld. Liðið setti niður 28 af 55 teigskotum, 50,9% og 7 af 15 þriggja stiga skotum sínum, 46,7%. Þá skoraði liðið úr 16 af 19 vítaskotum sínum 84,2%.

Grindvíkingar eru því komnir áfram og fá bikarmeistara Snæfells í næstu umferð og hefst einvígi liðanna á mánudag í Röstinni.


VF-Mynd/ [email protected]Þorleifur Ólafsson kemur inn til lendingar eftir eina glæsitroðsluna!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024