Grindavík sækir granna sína í Keflavík heim í kvöld
Grindavík sækir granna sína í Keflavík heim í kvöld í Pepsideild karla. Leikur liðanna hefst kl. 19:15 og er mikið í húfi enda bæði lið í neðri hluta deildarinnar. Grindavík er í 10. sæti með 13 stig en Keflavík í 7.-8. sæti með 17 stig en hefur leikið leik minna en liðin í kring.
Keflavík og Grindavík hafa mæst 29 sinnum efstu deild, fyrst árið 1995. Það er nokkuð jafnt á komið með liðunum í innbyrðis leikjum þeirra; Keflavík hefur unnið 13 leiki og Grindavík 9 en sjö sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 43-36 fyrir Keflavík. Stærsti sigur Grindavíkur var 4-0 sigur á Grindavíkurvelli árið 1996 en stærstu sigrar Keflavíkur er 3-0 heimasigur árið 1998 og 4-1 sigur í Grindavík árið 2002. Mesti markaleikur liðanna kom árið 2004 þegar Grindavík vann 4-3. Fimm leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Grindavík í efstu deild. Guðmundur Steinarsson hefur skorað níu mörk, Jóhann B. Guðmundsson fimm, Magnús Þorsteinsson þrjú, Haraldur Freyr Guðmundsson tvö og Andri Steinn Birgisson hefur gert eitt mark.
Það hefur verið þó nokkur samgangur milli Keflavíkur og Grindavíkur í gegnum árin enda ekki langt að fara. Milan Stefán Jankovic hefur þjálfað bæði lið og í gegnum árin hafa m.a. Kristinn Jóhannsson, Hjálmar Hallgrímsson, Þorsteinn Bjarnason, Zoran Ljubicic og Eysteinn Hauksson leikið með báðum félögunum. Í ár tefla bæði lið fram þremur leikmönnum sem hafa leikið með báðum þessum liðum. Í leikmannahópi Grindavíkur eru það þeir Haukur Ingi Guðnason, Paul McShane og Scott Ramsay sem hafa leikið með Keflavík og í herbúðum Keflavíkur eru það Grétar Hjartarson, Andri Steinn Birgisson og Magnús Þorsteinsson sem hafa einnig leikið með Grindavík, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Keflavíkur.