Grindavík og Njarðvík ósigruð eftir tvær umferðir
Grindavík og Njarðvík hafa bæði sigrað í tveimur fyrstu leikjum sínum í Domino’s deildinni í körfubolta karla. Í gær sigraði Grindavík Hött og Njarðvíkingar unnu góðan útisigur á Snæfelli.
Grindvíkingar lentu í vandræðum, í fyrri hálfleik gegn nýliðum Hattar frá Egilsstöðum. Gestirnir leiddu í hálfleik með níu stigum, 35-44. Kanalausir heimamenn bættu heldur betur leik sinn í síðari hálfleik og unnu þriðja leikhluta með þrettán stiga mun og bættu síðan enn um betur í lokaleikhlutanum. Jón Axel Guðmundsson skoraði mest hjá UMFG eða 24 stig og tók tíu fráköst, sannarlega flottur leikur hjá kappnum. Jóhann Árni Ólafsson var með 16/9 og Hilmir Kristjánsson með 14 stig.
Hjá Hetti skoraði Tobin Carberry 28 stig og tók 8 fráköst.
Njarðvíkingar gerðu góða ferð í Hólminn og unnu góðan sigur á Snæfelli. Þeir náðu þrettán stiga forskoti í fyrsta leikhluta en heimamenn svöruðu með tólf stiga betri öðrum leikhluta og því munaði aðeins einu stigi í hálfleik. Nær jafnt var á með liðunum í þeim þriðja en í lokahlutanum sigu Njarðvíkingar framúr og sigruðu að lokum 73-84.
Logi Gunnarsson skoraði 23 stig og tók 5 fráköst og Marquise Simmons 21 og tók 14 fráköst. Maciej BAginski var með 16 stig og fimm fráköst.
Sherrod Nigel Wright skoraði 24 stig hjá Snæfelli.