Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík og Keflavík sigra í leikjum sínum
Fimmtudagur 10. febrúar 2005 kl. 13:24

Grindavík og Keflavík sigra í leikjum sínum

Keflavík og Grindavík, toppliðin í 1. deild kvenna, unnu bæði leiki sína í gær. Keflavík vann nágranna sína úr Njarðvík með sannfærandi hætti, 102-85, og Grindavík vann KR í framlengdum leik, 86-88.

Keflavík-Njarðvík
Keflvíkingar unnu sinn fyrsta sigur eftir fjögurra leikja taphrinu og tefldu fram nýjum leikmanni, Alex Stewart, sem lofar afar góðu. Þær náðu strax forystunni og leiddu 27-17 eftir fyrsta leikhluta og 59-38 í hálfleik. Bryndís Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir Keflavík og skoraði 20 stig, en aðrir leikmenn eins og Birna Valgarðsdóttir og Anna María Sveinsdóttir voru líka að finna sig mun betur en í síðustu leikjum.

Hjá Njarðvík áttu Jaime Woudstra og Vera Janjic góðan leik ásamt Helgu Jónasdóttur, en þær réðu ekki við meistarana sem náðu sér aftur á strik eftir erfiða lægð.

Í 3. leikhluta var Jóni Júlíusi Árnasyni, þjálfara Njarðvíkur, vísað af velli eftir orðaskipti við dómara. Það hjálpaði Njarðvíkurstúlkum ekki og héldu Keflvíkingar öruggri forystu allt til leiksloka.

Tölfræði

KR-Grindavík
Erla Þorsteinsdóttir tryggði Grindvíkingum sigur á KR í framlengingu með skoti um leið og lokaflautið gall.

Grindvíkingar leiddu framan af leik og voru yfir í hálfleik, 34-43. KR átti í miklum vandræðum með svæðisvörn Grindvíkinga en komust aftur inn í leikinn í 3. leikhluta. þar sem KR-ingar, sem voru á heimavelli, unnu á og náðu 1 stigs forskoti fyrir 4. leikhluta, 60-59.

Lok venjulegs leiktíma voru æsispennandi þar sem KR-ingar komust yfir þegar lítið var eftir en Myriah Spence jafnaði metin út vítaskotum, 74-74. Því þurfti að grípa til framlengingar sem var mjög spennandi. KR missti sinn besta mann, Jericu Watson, útaf með 5 villur í framlengingunni, en komust samt tveimur stigum yfir þegar 5 sekúndur voru eftir. Grindvíkingar voru hins vegar fljótar að koma boltanum á Erlu sem tryggði nauman sigur.

Tölfræði

VF-myndir/Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024