Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 17. október 2003 kl. 22:06

Grindavík og Keflavík sigra auðveldlega

Keflavík og Grindavík lögðu andstæðinga sína að velli í síðustu leikjum 16-liða úrslita Hópbílabikars karla í körfuknattleik sem fóru fram í kvöld.
Í Keflavík voru leikmenn Ármanns/Þróttar gjörsigraðir eins og við var búist. Lokatölur voru 112-60 og voru heimamenn með fulla stjórn á leiknum allan tímann og öruggur sigur aldrei í hættu. Stigahæstu menn Keflavíkur voru Gunnar Einarsson, sem skoraði 22 stig og þar af 6 þriggja stiga körfur, og Nick Bradford, sem skoraði 19 stig. Þjálfararnir Guðjón Skúlason og Falur Harðarson voru ánægðir með úrslitin í leiknum sem mætti kalla skylduverkefni fyrir sterkt lið Keflavíkur, en búa sig nú undir erfiðan leik í Seljaskóla á sunnudaginn þar sem þeir sækja ÍR-inga heim í Intersport-deildinni. Þeir segja góða stemmningu í liðinu og að hópurinn sé stór og jafn og þeir eru hvergi bangnir þrátt fyrir að ÍR-ingar séu alltaf erfiðir heim að sækja.

Í Grindavík voru yfirburðirnir jafnvel meiri þegar frískir heimamenn tóku á móti Reyni úr Sandgerði. Lokatölurnar 141-53 segja meira en mörg orð um gang leiksins og ljóst er að Grindvíkingar eiga eftir að vera illviðráðanlegir í vetur. Páll Axel, Vibergsson var stigahæstur heimamanna með 31 stig og Ragnar Ragnarsson fylgdi fast á hæla honum með 28 stig. Þorleifur Ólafsson átti líka frábæran leik og skoraði 19 stig, tók 12 fráköst, stal boltanum 8 sinnum og gaf 8 stoðsendingar.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, var að vonum ánægður með úrslitin en býr nú sína menn undir útileik gegn Snæfelli í Intersport-deildinni næstkomandi sunnudag. Hann sagði sína menn munu mæta svellkaldir í leikinn, vitandi að Snæfell eru erfiðir við að eiga á heimavelli.

Þegar er ljóst hvaða lið munu eigast við í 8-liða úrslitum Hópbílabikarsins og verða leikirnir sem hér segir:
ÍR-Grindavík
Njarðvík-KR
Keflavík-Hamar
Tindastóll-Haukar

Leikirnir fara fram í byrjun nóvember og er leikið heima og að heiman eins og í síðustu umferð og er ljóst að um margar hörkuviðureignir er að ræða sem verður gaman að fylgjast með.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024