Grindavík og Keflavík leika í kvöld
Í kvöld heimsækja Grindvíkingar Íslandsmeistara FH í Hafnarfjörðinn í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 19:15 á Kaplakrikavelli en þetta er slagur tveggja efstu liða í deildinni. FH hafa ekki enn tapað leik og eru með 20 stig að loknum átta umferðum en Grindvíkingar hafa 13 stig í 2. sæti deildarinnar.
Sigurður Jónsson tekur út leikbann í kvöld eftir að hafa verið vísað frá leik Grindavíkur og KR í stöðunni 5-0 Grindavík í vil. Sáu dómarar þess leiks sér þann kostinn vænstan að vísa Sigurði frá leik eftir ummæli sín við dómara. Sigurður sagði í samtali að þetta atvik væri með þeim hlægilegri sem hann hefði lent í á sínum ferli. Með sigri í kvöld geta Grindvíkingar minnkað forskot FH í deildinni niður í fjögur stig.
Keflvíkingar taka á móti Breiðablik og þurfa bráðnauðsynlega á sigri að halda í kvöld þar sem liðið er í níunda og næst neðsta sæti deildarinnar með 8 stig eftir 8 umferðir.
Blikar eru í 7. sæti deildarinnar með 10 stig og hafa innan sinna raða markahæsta leikmann deildarinnar, Marel Baldvinsson, sem gert hefur átta mörk í deildinni eða helming marka Breiðabliks.
Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15 í kvöld.
Staðan í deildinni
VF-mynd/ [email protected] - Þau elska hann Jóhann, árans kjóann, í Grindavík enda búinn að raða inn mörkunum.