Public deli
Public deli

Íþróttir

Grindavík og Keflavík áfram í VÍS-bikar karla
Dedrick Basile var góður gegn Haukum og skoraði 31 stig. Mynd úr safni VF/Ingibergur Þór Jónasson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 12. desember 2023 kl. 08:47

Grindavík og Keflavík áfram í VÍS-bikar karla

Bæði Grindavík og Keflavík tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum VÍS-bikars karla í körfuknattleik í gær. Fyrstudeildarlið Þróttar Vogum þurfti hins vegar að láta í minni pokann gegn KR og er því úr leik.

Grindavík - Haukar 88:80

Sigur Grindvíkinga á Haukum var tiltölulega öruggur þrátt fyrir að ekki hafi munað miklu á stigum liðanna. Grindavík tók forystu í byrjun og nánast hélt henni allan leikinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 28:22 en Haukar sóttu hart að Grindavík undir lok annars leikhluta og minnkuðu muninn í tvö stig (50:48).

Grindvíkingar juku forskotið á nýjan leik í þriðja hluta og náðu að byggja upp tólf stiga forskot (69:57) en Haukar minnkuðu hann niður í þrjú stig fyrir lokaleikhlutann (71:68).

Fjórði leikhluti var jafn framan af og Haukar náðu tvívegis tveggja stiga forystu (75:77 og 78:80).

Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson setti svo tóninn fyrir lokakaflann þegar hann setti niður þrist og breytti stöðunni í 81:80 fyrir Grindavík sem gerði tíu síðustu stigin í leiknum og sló þar með Hauka úr keppni.

Dedrick Basile lét til sín taka í gær og skilaði 31 stigi í hús fyrir Grindavík, Valur Orri Valsson og Deandre Kane komu næstir með sextán stig hvor og Daniel Mortensen með ellefu.

Halldór Garðar leiddi sína menn til sigurs á Selfossi.

Selfoss - Keflavík 87:103

Selfyssingar skoruðu fyrstu körfu kvöldsins og komust í 2:0 en eftir það var um einstefnu af hálfu Keflvíkinga að ræða.

Keflavík byggði jafnt og þétt upp forystu sína, voru með fjögurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (23:27), juku hana í fimmtán stig í hálfleik (42:57), 26 stig eftir þriðja (60:86) og unnu að lokum fimmtán stiga sigur (87:103).

Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflvíkinga, fór mikinn og gerði 28 stig í leiknum í gær. Marek Dolezaj skilaði 22 stigum, Sigurður Pétursson fimmtán og Igor Maric fjórtán.


KR - Þróttur 123:99

KR-ingar byrjuðu betur og náðu tíu stiga forystu í fyrsta leikhluta (33:23) en með góðum leik náðu Þróttarar að snúa leiknum sér í hag í öðrum leikhluta og leiða með sex stigum í hálfleik (54:60).

Leikurinn snerist á sveif með heimamönnum eftir hálfleik en Þróttarar héldu ágætlega í við þá í þriðja leikhluta og KR leiddi með sjö stigum fyrir síðasta leikhlutann (87:80).

Úthald gestanna virðist vera þrotið eftir þrjá leikhluta og í þeim fjórða skoruðu KR-ingar 36 stig á meðan Þróttur gerði nítján. Úrslitin því 24 stiga sigur KR og Þróttur úr leik.

Magnús Traustason fór í fararbroddi Þróttar með 27 stig, þá kom Arnaldur Grímsson með sextán, Tylin Lockett með þrettán og Kristján Fannar Ingólfsson með tólf.