Grindavík og Keflavík áfram í bikarnum
Njarðvíkingar og Þróttarar úr leik
Önnur umferð í Borgunarbikar karla í fótbolta fór fram í gær. Suðurnesjaliðin áttu misjöfnu gengi að fagna og féllu tvö þeirra úr leik.
Grindvíkingar lögðu Örninn 0-1 með marki frá Alexander Veigari Þórarinssyni.
Keflvíkingar lögðu Skallagrím í Borgarnesi 0-2 þar sem Sigurbergur Elísson og Daníel Gylfason sáu um markaskorun.
Njarðvíkingar töpuðu gegn Selfyssingum 1-2 eftir að hafa náð 0-1 forystu þegar Theodór Guðni Halldórsson skoraði úr víti í fyrri hálfleik. Sigurmark Selfyssinga kom sex mínútum fyrir leikslok.
Þróttarar þurftu að sætta sig við 0-1 tap á heimavelli gegn Gróttumönnum.
Víðismenn leika svo í kvöld á heimavelli sínum gegn Berserkjum. 32-liða úrslit hefjast svo þann 25. maí.