Grindavík nálægt því að stela sigrinum
Njarðvík og Grindavík áttust við í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Leikurinn fór fram á heimavelli Njarðvíkinga, Ljónagryfjuni, og framan af leik voru það heimakonur sem réðu lögum og lofum.
Njarðvík - Grindavík 68:67
Njarðvík hóf leikinn af miklum krafti og náðu sjö stiga forystu í fyrsta leikhluta (24:17). Áfram héldu Njarðvíkingar að þjarma að gestunum og forskotið jókst enn meira, var orðið að átján stigum þegar blásið var til hálfleiks (44:26).
Grindvíkingar mættu talsvert einbeittari til leiks í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í fimmtán stig fyrir síðasta leikhlutann (59:44).
Njarðvík hafði því fimmtán stiga forskot þegar fjórði leikhluti fór af stað en Grindvíkingar gáfu allt í leikinn og höfðu minnkað muninn í sjö stig eftir nokkrar mínútur (59:52).
Áfram hélt Njarðvík forystunni en þegar staðan var 63:54, og leikhlutinn ríflega hálfnaður, kom frábær kafli hjá Grindavík. Danielle Rodriguez skoraði tvö stig og Alexandra Sverrisdóttir setti niður annað af tveimur vítaskotum skömmu síðar, staðan orðin 63:57 og þá komu mikilvægir þristar frá Alexöndru og Eve Braslis ti að jafna leikinn. Það var svo Sara Mortensen hin danska sem kom Grindavík yfir (63:65) og tvær og hálf mínúta eftir af leiknum.
Það var allt í járnum þessar síðustu mínútur og Grindavík náði eins stigs forskoti þegar rúmlega fimm sekúndur voru eftir og staðan vænleg hjá Grindavík.
Það var hins vegar brotið á Selena Lott á síðustu sekúndu og hún fékk tvö vítaköst. Lott sýndi að hún hefur stáltaugar þegar hún setti bæði vítaköstin niður og tryggði Njarðvík sigurinn.