Grindavík með tveggja stiga forskot á toppnum
Grindavík er með tveggja stiga forskot á toppi 1. deildar karla eftir sigur á Þrótti 2-1 á Grindavíkurvelli. Grindavík lenti í talsverðum vandræðum með gestina en sigurinn var engu að síður sanngjarn.
Grindavík hafði talsverða yfirburði í fyrri hálfleik en engu að síður var það Þróttur sem skoraði eina mark hálfleiksins eftir vandræðagang í vörn Grindavíkur.
En tvö mörk á tveimur mínútum gerðu útslagið. Óli Baldur Bjarnason jafnaði metin þegar hann fylgdi eftir þrumuskot Jóhanns Helgasonar. Tveimur mínútum síðar átti Juraj Grizelj hörku skot sem var varið en Daníel Leó Grétarsson var fyrstur að átta sig og skoraði.
Þróttur missti mann af velli með rautt spjald á 58. mínútu og eftir það sigldi Grindavík sigrinum nokkuð þægilega í höfn.
Vel var mætt á völlinn í gær en rúmlega 400 manns sáu leikinn í blíðviðrinu.