Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík með frábæran leik – Njarðvík með sigur en Keflavík með tap
Miðvikudagur 9. mars 2011 kl. 22:01

Grindavík með frábæran leik – Njarðvík með sigur en Keflavík með tap

Öll þrjú Suðurnesjaliðin áttu leik í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Keflavík tapaði á heimavelli fyrir Hamar 72-91, Njarðvík rétt marði Snæfell á heimavelli 75-68 og Grindavík rústuðu Fjölni á útivelli 66-94 en þá er leiktíðinni lokið fyrir þær gulu. Njarðvík eiga sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni á móti Haukum á útivelli á Laugardaginn en Keflavík situr hjá.

Keflavík áttu ekki góðan dag þegar þær mættu sterkum deildarmeisturum Hamars. Hamar leiddu leikinn frá fyrsta fjórðungi og var Jón Halldór Eðvaldsson ekki sáttur við spilamennsku stúlknanna. Leikurinn endaði þannig að Hamar vann með 19 stigum, 72-91.

Stigahæstar í liði Keflavíkur voru Jacquline Adamshick með 22 stig og 15 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir með 19 stig og Marina Caran með 12 stig. Aðrar náðu ekki í tveggja stafa tölu. Stigahæst í liði Hamars var Slavica Dimovska með 21 stig.

Stigahæstar í liði Njarðvíkur voru Dita Liepkaine með 21 stig, Julia Demirer og Shayla Fields með 19 stig hvor og Ólöf Helga Pálsdóttir var með 8 stig. Stigahæst í liði Snæfells var Alda Leif Jónsdóttir með 15 stig.

Stúlkurnar úr Grindavík voru heldur betur í stuði í kvöld þegar þær heimsóttu Fjölni. Þær gjörsamlega komu, sáu og sigruðu. Fjölnir skoraði ekki stig frá þriðju mínútu leiksins fram til þeirrar níundu og má segja að þarna hafi glæsileg vörn Grindavíkur haft sitt að segja. Stúlkurnar voru með yfirburði allan leikinn og lönduðu frábærum sigri, 66-94.

Stigahæstar í liði Grindavíkur voru Janese Banks með 32 stig, Agnija Reke með 13 stig, Helga Hallgrímsdóttir með 11 stig og 14 fráköst. Berglind Anna Magnúsdóttir og Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir skiptu svo á milli sín sitthvorum 9 stigunum. Stigahæst í liði Fjölnis var Natasha Harris með 34 stig, 12 fráköst og 7 stolna bolta, frábær leikmaður þarna á ferð.

VF-Myndir: Siggi Jóns - [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024