Grindavík með félagaskiptamál til FIFA
Landsbankadeildarlið Grindavíkur í knattspyrnu hefur skotið félagaskiptamáli til Alþjóða knattspyrnusambandsins vegna sóknarmannsins Gilles Mbang Ondo frá Gabon. Frá þessu var greint á www.visir.is fyrr í dag.
Sóknarmaðurinn Ondo kom til landsins fyrir tíu dögum og hefur æft með gulum síðan þá. Þeir vilja semja við hann en hafa ekki fengið félagaskiptabeiðni sína samþykkta hjá gamla félagi Ondo. Ondo lék síðast með SC Eisenstadt í Austurríki sem var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mánaðarins. Ingvar Guðjónsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði að skiptastjóri þrotabúsins neitaði að samþykkja félagaskiptin.
„Austurríska knattspyrnusambandið hefur dregið lappirnar í þessu máli og er málið núna komið á borð FIFA. Það er okkar von að þeir taki á þessu máli bæði varðandi rétt leikmannsins og rétt okkar," sagði Ingvar í máli sínu við Vísi.
Það gæti flækt málin að félagaskiptaglugginn hér á landi lokar á miðnætti annað kvöld en Ingvar vonast til þess að það hafi ekki áhrif á málið.
„Félagaskiptabeiðnin fór frá okkur fyrir tólf dögum síðan og ef FIFA dæmir okkur í hag get ég ekki ímyndað mér annað en að hann fái leikheimild með okkur. En þetta er sérstakt mál og gæti gefið fordæmi."
Ondo er 23 ára gamall og lék áður með Auxerre í Frakklandi. Hann á að baki tvo A-landsleiki með Gabon og hefur skorað í þeim eitt mark. Hann er einnig með franskan ríkisborgararétt.
Heimild: www.visir.is