Grindavík mætir Val í kvöld
Einn leikur fer fram í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar Grindavík heimsækir Val í Vodafonehöllina í Reykjavík. Leikurinn hefst kl. 18:00.
Valur er á meðal botnliða í deildinni og hafa aðeins náð tveimur stigum eftir sjö leiki en Grindavík hefur 10 stig í 4. sæti en Keflavík er á toppi deildarinnar með 16 stig. Sigur er Grindvíkingum mikilvægur í kvöld svo þær missi toppliðin ekki of langt fram úr sér.
Bakvörðurinn Joanna Skiba hefur verið allt í öllu í leikjum Grindavíkurliðsins en hún gerir að jafnaði 21,3 stig í leik. Valskonur stóðu nýverið í Keflavík svo gera má ráð fyrir miklum baráttuleik að Hlíðarenda í kvöld.